Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, skrifar um nýja árið í Fréttablaðið í dag, líkt og allir formenn flokkanna.
Hún fer með frægar ljóðlínur Martin Niemöller, prests sem var gagnrýninn á þriðja ríki nasista í Þýskalandi og virðist Þorgerður því sjá líkindi milli uppgangs nasismans á fjórða áratug síðustu aldar og því sem nú er að gerast á Íslandi og Evrópu. Hún varar við lýðskrumi, öfgum, og sérhagsmunaöflum í pistli sínum hvar hún segir sinnuleysið gagnvart áðurnefndu hættulegt:
„Árið 2019 afhjúpaði að mörgu leyti þau sérhagsmunaöfl sem hafa fest rætur sínar innan íslensks samfélags. Fámennir aðilar ráða hér miklu. Áhrif þeirra ná til stjórnkerfisins, hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka. Tryggt er að við þessu rótgróna kerfi verði ekki hróflað. Þegar óréttlætið er síðan dregið fram í dagsljósið eru viðbrögð stjórnvalda fyrirsjáanleg; hópar eru skipaðir til að skoða og greina. Nefndir og hópar eru hins vegar ekki ígildi aðgerða. Til þess þarf pólitískan vilja,”
segir Þorgerður.
Þorgerður varar við skoðanaleysi hjá fólki, því það geti leitt af sér vafasöm stjórnvöld:
„Skoðanaleysi getur af sér sinnuleysi og ef eitthvað er ógn við lýðræðið í nútímasamfélagi er það afskiptaleysi. Afskiptalaust samfélag er gróðrarstía lýðskrums og sérhagsmuna þar sem almannahagsmunir víkja. Sömu öfl nýta plássið til að grafa undan jaðarsettum hópum, sjálfsögðum mannréttindum og alþjóðasamfélaginu. Það sjáum við í dag bæði austan hafs og vestan. Áróður þessara afla einkennist af hentistefnu og það er alið á ótta, sundrung og óhróðri. Tortryggninni gefnir vængir. En á endanum snýst þetta aðeins um eitt; völd. Þeirra völd. Ekkert annað. Sinnuleysi gagnvart lýðskrumi og öfgum er því ekki í boði,“
segir Þorgerður Katrín og ekki loku fyrir það skotið að orð hins alvitra Yoda fljóti yfir vötnum, að óttinn leiði til reiði, reiði leiði til haturs og hatur leiði til þjáninga.
Þorgerður nefnir dæmi um að tillögur auðlindanefndarinnar árið 2000 um sanngjarnt gjald útgerðanna fyrir afnotaréttinn hafi ekki leitt til neins, 20 árum síðar. Einnig brostin loforð Framsóknar – og Sjálfstæðisflokks árið 2013 um þjóðaratkvæði um áframhaldandi aðildaviðræður við ESB, sem hún segir ekki hafa verið neina tilviljun:
„Ekki heldur að hagsmunamál eins og jafnt vægi atkvæða, breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfinu, óstöðugur gjaldmiðill, vaxtakjörin og áhrif þeirra á íslensk heimili eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Allt eru þetta mál sem hrófla við hennar helstu bakhjörlum. Ríkisstjórnarinnar með kyrrstöðusáttmálann.“
Ljóðlínurnar um uppgang nasismans eru eftirfarandi:
„Fyrst komu þeir og sóttu kommúnistana; ég sagði ekkert því að ég var ekki kommúnisti. Síðan sóttu þeir gyðingana; ég sagði ekkert því að ég var ekki gyðingur. Þá komu þeir til þess að sækja verkamennina, félaga í stéttarfélögum; ég var ekki í stéttarfélagi. Þar á eftir sóttu þeir kaþólikkana; ég sagði ekkert því að ég var mótmælandi. Loks komu þeir til þess að sækja mig og enginn varð eftir sem gat sagt neitt.“
Um þetta segir Þorgerður:
„Í þessum fræga prósa séra Martin Niemöller fólst ádrepa á skoðana- og kjarkleysið á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þetta var samfélags- og sjálfsgagnrýni í senn.“