„Við viljum efla eftirlit með fjármagnsflutningum milli landa og herða skattaeftirlit innanlands. Við viljum setja bann við þunnri eiginfjármögnun, auka varnir í peningaþvættismálum og efla eftirlit með lágskattaríkjum. Við viljum lögfesta skýrari og öflugri uppljóstraravernd. Þessar sömu aðgerðir myndu einnig gera það að verkum að við værum ekki á gráum lista FATF, heldur værum við með traust og viðurkennt fjármálakerfi,“
skrifar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata í Fréttablaðið í dag hvar hún segir betra samfélag nást með betri spillingarvörnum. Ein slík vörn sé aukið gagnsæi:
„Gagnsæið, sem við Píratar leggjum svo mikla áherslu á, er forsenda fyrir ábyrgri og upplýstri þátttöku almennings í mótun samfélagsins. Fólk þarf að geta treyst því að upplýsingar séu auðfáanlegar og leyndarhyggja engin, að ráðamenn séu dregnir til ábyrgðar vegna gjörða sinna, að uppljóstrarar njóti verndar, að eftirlit sé sanngjarnt en áhrifaríkt, að lögreglan sé hlutlaus en mannleg og að störf Alþingis snúist um almannahag frekar en sérhagsmuni,“
segir Þórhildur og nefnir að ný stjórnarskrá sé forsendan fyrir auknu gagnsæi og betri spillingavörnum.
Þórhildur nefnir einnig að með auknu eftirliti geti sparast milljarðar króna sem nýst gætu samfélaginu:
„Spillingarvarnir kosta ekki mikið í krónum talið, en þær kalla á pólitískan vilja og þor sem ekki hafa verið fyrir hendi hingað til. Og það þrátt fyrir að vitað sé að útgjöld við sterkar spillingarvarnir og stöndugar eftirlitsstofnanir skila sér margfalt til baka. Ímyndum okkur skatttekjurnar sem við verðum af út af þeim 47 milljörðum sem streyma úr landi inn í af landsfélög og aftur út í gegnum um svissnesk kreditkort íslenskra auðmanna. Ætli heilbrigðiskerfið okkar hefði ekki gott af þeim milljörðum? Ímyndum okkur hvað er hægt að gera fyrir þá um það bil 10 milljarða sem sameiginlegir sjóðir allra landsmanna verða af árlega. Fyrir þessa upphæð væri hægt að ljúka framkvæmdum við 15 ára samgönguáætlun á 10 árum. Tvöfalda fjármagn til umhverfis- og loftslagsmála á hverju ári. Þrefalda framlög í helstu nýsköpunarsjóði landsins. Eða einfaldlega hækka persónuafslátt hjá öllum um 4.000 krónur á mánuði.“