Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, segir mikilvægt að kvótaflóttamenn sem boðið er hingað til lands séu kristnir. Þetta kom fram í nýársræðu sem Birgir flutti í Seltjarnarneskirkju á nýársdag. Viljinn greindi frá þessu
Birgir segir áhyggjuefni að hér á landi hafi gætt ákveðinnar tilhneigingar til skipulagrar afkristnunar síðustu árin. Þessari öfugþróun hafi verið stjórnað af háværum minnihluta.
Birgir bendir á að mjög lítill hluti þeirra sem fengið hafi stöðu flóttafólks hér á landi á síðustu árum sé kristinn. Kristnir flóttamenn eigi hins vegar auðveldara með að aðlagast samfélaginu en fólk annarrar trúar. Þá bendir Birgir á að kristið fólk sé ofsótt vegna trúar sinnar í mörgum þeirra landa sem kvótaflóttamenn koma hingað frá.
Birgir segir einnig mikilvægt að efla kristnifræðslu í skólum á ný og snúa þar við af braut afkristnunar.