fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Eyjan

Boris er alls ekki búinn að tapa – líklegast er að hann verði forsætisráðherra á nýju kjörtímabili

Egill Helgason
Laugardaginn 7. september 2019 12:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er líklega of snemmt fyrir andstæðinga Borisar Johnson að láta sig hlakka yfir óförum hans. Að öllum líkindum fær Boris þeim metnaði sínum fullnægt að verða forsætisráðherra Bretlands áfram og jafnvel í heilt kjörtímabil.

Nú veit enginn í rauninni hvernig á að greiða úr Brexit-flækjunni. Hin mismunandi sjónarmið virðast ósamrýmanleg. Johnson mistókst að vaða yfir þingið í Westminster, það reis upp gegn honum. Það er ekki víst að nærvera hins nokkuð skuggalega Dominic Cummings sé til góðs.

Johnson hefur verið svo sleginn út af laginu að virðist ekki einu sinni geta haldið góða ræðu þessa dagana. Hann stillti sér upp, líkt og Bandaríkjaforseti, fyrir framan sveit af löggæslufólki (sem mælist ekki vel fyrir í Bretlandi) og hélt tölu þar sem hann tuldraði og tafsaði. Brandarnir hans virðast ekkert virka þessa dagana.

Allar líkur eru á að Brexit verði frestað fram að áramótum – Boris þarf þá annað hvort að reyna að leita samninga við Evrópusambandið ellegar að segja af sér sem forsætisráðherra. Reyndar segir hann nú að hann ætli ekki að hlíta lögunum sem þingið setti í vikunni þar sem samningslaust Brexit er slegið út af borðinu og gert ráð fyrir frestun.

Hann fær að líkindum engar þingkosningar fyrir útgöngudagsetninguna 31. október, en það breytir því ekki að kosningar verða í Bretlandi innan skamms. Eins og staðan er núna bendir allt til sigurs Íhaldsflokks Johnsons – ef hann stendur eins fast við Brexit og hann getur. Ef hann sýnir hins vegar merki þess að hann sé að gugna eða snúa við blaðinu, þá er hugsanlegt að allt verði í járnum í breskum stjórnmálum, Brexit-flokkurinn taki fylgi af Íhaldsflokknum, og jafnvel að enginn flokkur hafi meirihluta í Westminster.

Þetta byggir á kosningakerfinu í Bretlandi. Þar eru við lýði einmenningskjördæmi sem fela í sér að sá þingmaður er kosinn í hverju kjördæmi sem fær flest atkvæði, aðrir komast ekki að. Þannig er hægt að vinna kosningar með því að fá aðeins 35 prósenta fylgi yfir landið allt. Þetta er náttúrlega skelfing óréttlátt og forneskjulegt – í kosningunum 2014 var Ukip þriðji stærsti flokkurinn með 12,5 prósent en fékk aðeins einn þingmann.

Staðan gæti líka verið önnur ef Verkamannaflokkurinn hefði sterkari leiðtoga. Fylgi Verkamannaflokksins er mjög lélegt þessa dagana – Jeremy Corbyn hefur reyndar endurtekið í sífellu að hann vilji fara í kosningar. Nú er honum borið á brýn hugleysi, að vilja fresta kosningunum fram yfir 31. október. Það var minniháttar hneyksli þegar fullur Dominic Cummings æpti á eftir honum í þinginu í vikunni: “Come on Jeremy let’s do this election, don’t be scared.“

Það eru líka miklar líkur á að Frjálslyndir demókratar bæti hressilega við fylgi sitt undir forystu Jo Swinson – flokkurinn hefur verið einarður í afstöðunni gegn Brexit meðan Corbyn hefur ekki vitað sitt rjúkandi ráð, hafandi verið heldur andsnúinn ESB allan sinn pólitíska feril. En í bili hefur hann tök á flokknum sjálfum – þótt óvíst sé með hvað hann höfðar til kjósenda. Kannski vonast Corbyn til þess að geta sveiflað fylginu snögglega upp á við í kosningabaráttunni líkt og hann gerði 2017, en þá verður honum að takast að láta kosningarnar snúast um annað en Brexit.

Plan Johnsons og Cummings gekk ekki upp – sá fyrrnefndi hefur ætíð þótt vera tækifærissinni en sá síðarnefndi er fanatískur. Það er harkaleg aðgerð og ákveðið rof að reka tvo tugi þingmanna sem margir eiga langan og virðulegan feril. En það breytir því ekki að í þessu flókna tafli er líklegasta niðurstaðan sú að Boris Johnson leiði Íhaldsflokkinn í kosningum, nái meirihluta í þinginu og sitji næsta kjörtímabil sem forsætisráðherra. En hann verður ekki á friðarstóli, þótt niðurstaðan yrði Brexit án samnings undir nýju þingi um áramót þarf samt að semja um Evrópusambandið um ótal mál, auk þess sem Skotar myndu verulega ókyrrast undir stjórn hans.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Víðir féll í gildru Stefáns Einars í Spursmálum – Svarar nú áróðrinum fullum hálsi

Víðir féll í gildru Stefáns Einars í Spursmálum – Svarar nú áróðrinum fullum hálsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kosningaumfjöllun Eyjunnar: Miðflokkurinn er miðflokkur en ekki hægri flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, segir Guðlaugur Þór

Kosningaumfjöllun Eyjunnar: Miðflokkurinn er miðflokkur en ekki hægri flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, segir Guðlaugur Þór
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lenya Rún snýr vörn í sókn eftir viðtalið við Stefán Einar – „Já ég skeit upp á fokking bak en ég er ógeðslega góð í að læra“

Lenya Rún snýr vörn í sókn eftir viðtalið við Stefán Einar – „Já ég skeit upp á fokking bak en ég er ógeðslega góð í að læra“