Athygli vakti í morgun ummæli Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu, hvar hann fyrir hönd þingflokks síns hótaði stjórnarslitum ef umhverfisráðherra bætti ekki verklag sitt:
„Ég get ekki séð að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins getum stutt stjórnarsamstarf sem fer fram með þessum hætti. Það er best að gera grein fyrir því strax,“
skrifaði Jón.
Birgir Ármannsson er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir Jón aðeins tala fyrir sjálfan sig:
„Jón talar auðvitað bara fyrir sína hönd og ekki annarra, en auðvitað eigum við eftir að ræða þessi mál frekar á vettvangi þingflokksins. Það eru skiptar skoðanir um þessi mál sem Jón nefnir eins og gefur að skilja. En þegar menn skrifa svona greinar þá tala þeir auðvitað bara fyrir sína hönd,“
ítrekaði Birgir við Eyjuna.
Hann nefndi einnig að málið yrði tekið til umræðu innan þingflokksins á næstu dögum, en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti, til dæmis um hvort þetta væri almennt viðhorf þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem Jón nefnir í grein sinni.
Jón sagði að umhverfisráðherra, Guðmundur I. Guðbrandsson, VG, færi ekki að lögum varðandi friðlýsingar:
„Aðferðafræði hans stenst að mínu mati enga skoðun og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu sem hann boðar. Ég er sammála því að verklag hans samræmist ekki lögum.“
Umhverfisráðherra undirritaði í ágúst undir friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, samkvæmt rammaáætlun frá árinu 2013, þegar virkjanahugmyndir voru slegnar af á svæðinu.
Var það fyrsta svæðið úr verndarflokki rammaáætlunar sem var friðlýst, en umhverfisráðherra hóf friðlýsingarátak sitt á síðasta ári.