Eftir að tilkynning barst frá Kára Jónssyni, formanns félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, í gærkvöldi, þar sem Bjarni Benediktsson er sagður hafa kæft undirskriftasöfnun gegn þriðja orkupakkanum í fæðingu, er ástandið innan Sjálfstæðisflokksins sagt afar eldfimt. Í tilkynningu sagði:
„Söfnunin fór gríðarlega vel af stað, en þegar formaður flokksins, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir við fjölmiðla fjórum dögum eftir að söfnunin hófst að viðhorf flokksmanna myndu engu breyta um stefnu þingflokksins í málinu þá hægði mjög á söfnuninni.“
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og orkupakkaandstæðingur með meiru, segir þetta alvarleg tíðindi:
„Nú berast alvarleg tíðindi úr Sjálfstæðisflokki. Í fréttatilkynningu, sem Jón Kári Jónsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi hefur sent frá sér segir svo um undirskriftasöfnun meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna með ósk til miðstjórnar um almenna atkvæðagreiðslu meðal flokksbundinna um orkupakkamálið,“
segir Styrmir og spyr hver tilgangurinn hafi verið með breytingunum á skipulagsreglum flokksins, sem kváðu á um kosningu meðal flokksmanna um tiltekið málefni, ef tiltekinn fjöldi undirskrifta næðist, eða 5000 talsins og þar af skulu 300 vera úr hverju kjördæmi landsins:
„Var þetta tóm sýndarmennska? Ætla verður að þetta mál verði rætt á flokksráðs- og formannafundi Sjálfstæðisflokksins í lok næstu viku. Eða verður kannski komið í veg fyrir slíkar umræður? Hvar er lýðræðið í Sjálfstæðisflokknum á vegi statt?“
Tilkynningin í heild
„Þann 6. ágúst sl. hratt ég af stað undirskriftasöfnun meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna og var ætlunin að safna 5.000 undirskriftum og knýja fram kosningu innan flokksins um þriðja orkupakkann. Í gær var pakkinn samþykktur á Alþingi og er undirskriftasöfnuninni því sjálfhætt. Söfnunin fór gríðarlega vel af stað, en þegar formaður flokksins, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir við fjölmiðla fjórum dögum eftir að söfnunin hófst að viðhorf flokksmanna myndu engu breyta um stefnu þingflokksins í málinu þá hægði mjög á söfnuninni. Eftir stendur þó sú staðreynd að vel á þriðja þúsund undirskriftir söfnuðust og má til samanburðar geta þess að á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins mæta að jafnaði um 1.300-1.400 manns.“
Undir skrifa þeir Jón Kári Jónsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, Pjetur Stefánsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Bakka- og Stekkjahverfi, Erlendur Borgþórsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Smáíbúða- og Fossvogshverfi, Guðmundur Gunnar Þórðarson, formaður félags sjálfstæðismanna í Seljahverfi, Birgir Steingrímsson, varaformaður félags sjálfstæðismanna í Háaleitishverfi, og Hafsteinn Númason, formaður félags sjálfstæðismanna á Kjalarnesi.