Borgarstjórn samþykkti í gær tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að halda hönnunarsamkeppnir um nýja leik- og grunnskóla í Skerjafirði og Vogabyggð.
„Kraftmikil uppbygging nýrra hverfa í Reykjavík kallar á góða þjónustu við íbúa sem tímasett er í takti við hraða uppbyggingarinnar. Vandaður undirbúningur góðra skólabygginga felst m.a. í því að halda hönnunarsamkeppnir um mannvirkin,“
segir í tilkynningu.
Samkvæmt tillögunni verður umhverfis- og skipulagssviði falið að skilgreina keppnislýsingu og forsendur samkeppninnar í samráði skóla- og frístundasvið.
Ný hverfi munu byggjast upp á næstu misserum við Elliðaárvoga og í Skerjafirði. Í Vogabyggð er uppbygging þegar hafin og skipulagsvinna er langt komin fyrir fyrsta áfangann að nýju hverfi í Skerjafirði. Fjöldi nýrra íbúða mun rísa í þessum hverfishlutum sem kallar á uppbyggingu nýrra leik- og grunnskóla í báðum hverfum. Þannig er áætlað að um eða yfir 1.900 íbúðir muni verða byggðar í Vogabyggð og um 800 í Nýja Skerjafirði.
Fyrstu skrefin í undirbúningi að þessari uppbyggingu eru því sögð felast í því að framkvæma hönnunarsamkeppni um þessar nýju skóla byggingar í hverfunum. Samráð verður haft við Arkitektafélag Íslands um framkvæmd hönnunarsamkeppnanna.