Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 1.728 milljónum króna í ágúst samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Þetta er mikil aukning frá sama mánuði í fyrra, eða sem nemur 123% og hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei verið meira í ágústmánuði, samkvæmt tilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Gengi krónunnar var að jafnaði 10% veikara í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra miðað við gengisvísitölu krónunnar. Er því um að ræða tvöföldun í verðmætum í erlendri mynt. Í tonnum talið jókst útflutningur á eldisafurðum um 95%, en alls voru flutt út 1.764 tonn af eldisafurðum í ágúst samanborið við 906 tonn í sama mánuði í fyrra.
Á fyrstu 8 mánuðum ársins nemur útflutningsverðmæti eldisafurða um 15,5 milljörðum króna. Það er 79% aukning í krónum talið á milli ára, en á sama tímabili í fyrra var verðmæti eldisafurða komið upp í rúma 8,6 milljarða króna. Að teknu tilliti til gengisáhrifa nemur aukningin 60% og er það stóraukið eldi á laxi sem skýrir þessa aukningu eins og myndin hér fyrir neðan ber með sér.
Á henni sést jafnframt að útflutningsverðmæti eldisafurða fyrstu átta mánuði ársins, er nú þegar orðið mun meira en það hefur áður verið á heilu ári. Með sama áframhaldi stefnir í að verðmæti útfluttra eldisafurða verði í kringum 24 milljarða króna í ár.
Aflaverðmæti úr sjó var tæpir 126,3 milljarðar árið 2018 sem er 14,8% aukning samanborið við árið 2017. Verðmæti botnfiskaflans nam 89 milljörðum og jókst um 16,9%. Þorskur er sem fyrr verðmætasta tegundin með aflaverðmæti upp á 55,8 milljarða, sem er 14,5% aukning milli ára. Af öðrum botnfisktegunum nam aflaverðmæti ýsu 10,6 milljörðum (+33,2%), karfa 10,2 milljörðum (+15,5%) og ufsa 7,9 milljörðum (+23,6%). Verðmæti uppsjávarafla var 24,4 milljarðar sem er 2,6% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti flatfisks jókst um 35,6% á milli ára og var 10,2 milljarðar árið 2018. Verðmæti skel- og krabbadýraaflans nam 2,6 milljörðum á síðasta ári samanborið við 2,4 milljarða árið 2017.
Verðmæti afla, sem seldur var til vinnslu innanlands árið 2018, nam 70,8 milljörðum sem er um 56% af heildarverðmæti. Verðmæti sjófrysts afla nam 29,8 milljörðum og verðmæti afla, sem fór á fiskmarkaði til vinnslu innanlands , nam 19,5 milljörðum, eða um 15% af heildarverðmæti.