Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Allir bæjarstjórarnir, sem skrifuðu undir samninginn eru Sjálfstæðismenn, en borgarstjóri er Samfylkingarmaður. Auk þeirra skrifuðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra undir samkomulagið.
Það er til fimmtán ára en á þeim tíma verður um 52 milljörðum varið í stofnvegi, tæpum 50 milljörðum í innviði borgarlínu og almenningssamgöngur, rúmlega 8 milljörðum verður varið í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng. Rúmlega 7 milljarðar eiga síðan að fara í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir.
Eyþór hefur gagnrýnt samkomulagið og hefur kvartað yfir samráðsleysi við gerð þess. Margir flokksbræðra hans á sveitarstjórnarstiginu segja þetta ekki rétt og hafa meðal annars bent á að Eyþór hafi verið boðaður á stóran samráðsfund þann 11. september en hafi ekki látið sjá sig. Hefur fréttablaðið eftir tveimur bæjarstjórnarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu að eftir þessu hafi verið tekið.