fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Hörður um mikla fækkun bankastarfsmanna á Íslandi – „Það er of lítið“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 27. september 2019 09:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Tíminn hefur verið illa nýttur. Frá 2014 hefur bankastarfsmönnum fækkað um þrettán prósent. Það er of lítið sé tekið mið af viðvarandi erfiðu rekstrarumhverfi, sem einkennist af stífum eiginfjárkröfum og háum sértækum sköttum, og fyrirsjáanlegum áskorunum með nýjum leikendum og mun meiri samkeppni í fjármálaþjónustu. Afleiðingin hefur verið léleg arðsemi og mikill rekstrarkostnaður,“

segir Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, í leiðara Fréttablaðsins í dag. Bankastarfsmönnum hefur farið ört fækkandi frá hruni, eða um 40 prósent, hjá viðskiptabönkunum og Sparisjóðunum. Fækkaði starfsmönnum þeirra um 200 manns á síðasta ári og bættust samtals 120 við í gær hjá Arion banka og Íslandsbanka í uppsögnum þar og 12 hjá Valitor.

Árið 2012 þótti ofgnótt af bankastarfsmönnum hér á landi samkvæmt skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Var lagt til að kerfið yrði uppstokkað til að ná fram meiri hagkvæmni innan þess. Bankakerfið þótti of dýrt og skipað of mörgum starfsmönnum, en tölvuvæðing viðskiptabankanna hefði tekið lengri tíma að skila sér í fækkun starfsmanna og útibúa samanborið við hin Norðurlöndin.

Uppsagnir komi ekki á óvart

Hörður segir ákvörðun Arion banka um að segja upp 100 starfsmönnum ekki koma á óvart, hún hafi verið viðbragð við stöðunni og „því miður nauðsynleg“ þar sem skortur hafi verið á virkum eigendum bankanna og þar af leiðandi hafi þeir verið á sjálfsstýringu í of langan tíma:

„Afleiðingarnar eru að skýra sýn hefur vantað upp á hverju þurfi að breyta og hvað bæta. Sú staða er ekki lengur í boði.“

Hörður nefnir að fjöldauppsagnir Arion og Icelandair á dögunum eigi sér ekki stað í tómarúmi, heldur séu þær ásamt öðrum uppsögnum, vitnisburður um þverrandi samkeppnishæfi Íslands:

„Launakostnaður, mældur í erlendri mynt, hefur hækkað margfalt meira hér á landi í samanburði við okkar helstu nágrannaríki. Þetta er ekki hræðsluáróður heldur sá efnahagsveruleiki sem við blasir og veldur því að mörg fyrirtæki, meðal annars Icelandair, hefur orðið undir í samkeppni við erlenda keppinauta og leitar nú allra leiða til hagræðingar eigi félagið að vera samkeppnisfært.“

Bankar ráði ekki við opinberar álögur

Hörður segir vanda bankanna þann sama í grunninn:

„Fjárhagslegur styrkur þeirra hefur sjaldan verið meiri, með hæstu eiginfjárhlutföll í Evrópu, sem samanstendur af raunverulegu eigin fé, og geta því vel staðið af sér möguleg stór áföll í efnahagslífinu. Þær eiginfjárkröfur sem bankarnir þurfa að uppfylla, ásamt því að greiða margfalt hærri opinberar álögur en aðrir evrópskir bankar, hefur hins vegar stuðlað að óarðbærum rekstri og rýrt stórkostlega samkeppnishæfni þeirra, einkum í útlánum til fyrirtækja.“

Afgreitt sem væl í bankamönnum

Hörður segir að skilvirkt fjármálakerfi sé eftirsóknarvert markmið sem vinna þurfi að:

„Það er hægt að afgreiða slík rök með hefðbundnum hætti, sem væl í bankamönnum sem ekki beri að taka mark á, en þetta er engu að síður staðreynd. Enginn hefur talað fyrir breytingum sem miða að því að hverfa aftur til áranna í aðdraganda fjármálahrunsins, enda þótt sumir hagfræðiprófessorar kjósi að stilla hlutunum upp þannig í sínum hliðarveruleika, heldur einungis að fyrirtæki búi við sambærilegt regluverk og þekkist í Evrópu. Svo er ekki í dag. Hagkvæmt og skilvirkt fjármálakerfi, sem hefur burði til að þjónusta fyrirtæki og heimili, er forsenda þess að bæta framleiðni í atvinnulífinu. Ætla mætti að flestir væru sammála um að það væri eftirsóknarvert markmið.

Ísland er ekki eyland. Versnandi rekstraraðstæður í atvinnulífinu, sem endurspeglast núna í tíðum hópuppsögnum, er áminning um mikilvægi þess að huga betur að samkeppnishæfni landsins. Enginn ætti að vera stikkfrí í þeirri umræðu. Verkalýðshreyfingin, stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir, Seðlabankinn og atvinnurekendur. Við eigum í alþjóðlegri samkeppni um vinnuafl og fjármagn og hvernig fyrirtækjum reiðir þar af ákvarðar þá verðmætasköpun sem verður til hverju sinni. Þetta gerist nefnilega ekki af sjálfu sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK