„Um þrjátíu manna hópur frá 2. flota bandaríska sjóhersins er núna tímabundið á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvell til að æfa uppsetningu og rekstur hreyfanlegrar stjórnstöðvar. Hópurinn kom í byrjun september og fer frá Íslandi eftir mánaðarmótin. Stjórnstöðin hefur átt í samskiptum við skip bandaríska sjóhersins sem eru á Norður-Atlantshafi við venjubundin störf. Allur kostnaður af dvöl bandaríska sjóhersins er greiddur af bandaríska ríkinu.“
Svo segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Eyjunnar um hvaða erindi bandaríski sjóherinn eigi hingað til lands.
Í tísti frá sjóhernum frá því í gær er greint frá því að hreyfanlegri stjórnstöð hafi verið komið fyrir í Keflavík til að sjá flotanum í Evrópu fyrir auknum möguleika á að leiða herafla sinn:
.@USNavy @US2ndFleet has temporarily established an expeditionary Maritime Operations Center in Keflavik, #Iceland, to provide the U.S. Naval Forces Europe commander an additional ability to lead forces from a forward-operating location. @usembreykjavikhttps://t.co/VaSiuT3cX7 pic.twitter.com/P1rkekzgJk
— U.S. Naval Forces Europe-Africa/U.S. 6th Fleet (@USNavyEurope) September 25, 2019
Þá er greint frá því í fréttabréfi sjóhersins að staðsetningin muni stuðla að betri árangri til að takast á við áskoranir og ógnir við öryggi á hafi úti. Nefnt er að þetta sé í fyrsta skipti sem þetta sé reynt hér við land og því um tilraunastarfsemi að ræða:
„Ísland er lykil-bandamaður (key ally) og staðsetning þess í Norður-Atlantshafi veitir okkur fullkomið tækifæri til að prófa færanlegu stjórnstöð okkar í fyrsta skipti. Það styrkir samstarfið að fá að starfa á Íslandi og gefur okkur færi á að æfa getu okkar í að sækja fram,“
er haft eftir Andrew Lweis, vara-aðmíráli og flotaforingja.
„Árangursríkar aðgerðir á Norðurslóðum krefjast æfinga,“ segir Cris Slattery, kapteinn og yfirmaður hópsins.