Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi, hefði sjálfsagt lítið á móti því að skattatillögur Bernie Sanders, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, yrðu teknar upp hér á landi, sem þýddi auðlegðarskatt upp á mest 8%:
„Auðlegðarskattur Bernie Sanders er þrepaskiptur skattur þar sem 1% skattur leggst á eign umfram 2 milljarða króna m.v. einstakling (tvöfalt hjá hjónum) og svo stigvaxandi með hækkandi eign allt þar til að 8% skattur leggst á eignir umfram 625 milljarða króna eign (það er álíka há upphæð um fjórðungur af landsframleiðslu Íslands).“
Gunnar Smári tekur dæmi af Kristjáni Vilhelmssyni, eins aðaleiganda Samherja:
„Ef við tökum íslenskt dæmi þá er eigið fé Samherja um 111 milljarðar og Kristján V. Vilhelmsson á um 40% af Samherja; ef þessi eign yrði skattlögð samkvæmt tillögum Bernie myndi Kristján og eiginkona hans þurfa að borga rúmlega 900 m.kr. í auðlegðarskatt árlega,“
segir Gunnar en nefnir að Kristján myndi nú samt sem áður eiga fyrir salti á grautinn:
„Hagnaður Samherja var um 11.900 m.kr. í fyrra og hlutdeild Kristján var því um 4.750 m.kr. svo það er langt í frá að skattatillögur Bernie myndu éta upp auð Kristjáns, hann myndi aðeins vaxa eilítið hægar.“
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði til á dögunum að skattar á auðmenn yrðu hækkaðir rækilega:
„Stjórnmálamenn eiga ekki að forðast að tala um skatta. Og við eigum ekki að forðast að segja að það þarf að hækka skatta á íslenska auðmenn (sem er mjög lítill og þröngur hópur Íslendinga sem á mikið af eignum og peningum).
Nefndi Ágúst alls níu ástæður fyrir því hvers vegna hækka mætti skatta á auðmenn. Hér koma nokkrar:
- Auðmenn hafa vel efni á því að greiða meira til samfélagsins. 0,1% ríkustu Íslendinganna eru með 3 milljónir í tekjur á viku (á viku!). Um 1% ríkustu landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna (sem þú, kæri lesandi líklega tilheyrir). Ríkustu 5%-in á næstum jafnmikið og það sem restin af landsmönnum (95%-in) eiga. Ekki er langt síðan einn útgerðarmaður gekk út með 22 þúsund milljónir króna í vasanum vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.
- Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Takið eftir að auðmenn á Íslandi hagnast fyrst og fremst á fjármagnstekjum. Til viðbótar stefnir þessi ríkisstjórn enn á að verja fjármagnseigendur, einn hópa, gegn komandi verðbólguskoti með því leyfa þeim að draga verðbólguna frá skattstofni sínum.
- Auðlegðarskattur var lagður af á Íslandi þrátt fyrir mikinn eignaójöfnuð hér á landi (ólíkt því sem margir halda).
- Laun forstjóra ríkisfyrirtækja hafa hækkað um 40% á tæpum 2 árum (Isavia og Íslandspóstur). Bankastjórar ríkisbankanna tveggja eru með tæpa milljón á viku (!) og hækkuðu laun bankastjóra Landsbankans um 82%, laun forstjóra Landsvirkjunar um 63% og laun forstjóra Landsnets um 67% á tæpum 2 árum.
Sjá nánar: Ágúst Ólafur nefnir níu ástæður þess að hækka þurfi skatta á auðmenn- „Hafa vel efni á því“