Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, einnig þekktur sem David Gunnlaugsson, segir að þó svo að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi í dag, líkt og yfirgnæfandi líkur eru á, sé málið alls ekki búið:
„Telji menn að með því að samþykkja orkupakkann í dag sé málið frá er það mikill misskilningur. Þá væri það fyrst að byrja fyrir alvöru.“
Sigmundur greinir ekki nánar frá því hvernig málinu verði haldið við eftir samþykkt þess, en Frosti Sigurjónsson, talsmaður Orkunnar okkar, útskýrir það nánar í Morgunblaðinu hvernig samtökin hyggjast beita sér:
Talsmenn Orkunnar okkar, sem barist hafa gegn innleiðingunni, hyggjast í dag afhenda forseta Alþingis undirskriftir við áskorun um að hafna þriðja orkupakkanum, en atkvæðagreiðslan um málið fer fram í dag um 10.30. Alls hafa safnast 16.700 undirskriftir og er haft eftir Frosta að þó svo að orkupakkinn verði samþykktur, sé málið alls ekki búið:
„Baráttan fyrir fullu forræði Íslendinga yfir eigin orkumálum heldur áfram. Orkupakkinn tekur ekki gildi nema forsetinn samþykki hann. Forsetinn gerir samninga við erlend ríki samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar. Við munum skora á forsetann að fallast ekki á þetta og höfum birt honum slíka áskorun. Það er næsta skref,“
segir Frosti og nefnir að fallist Guðni Th. Jóhannesson ekki á áskorun þeirra, verði skorað á hann að samþykkja ekki þau frumvörp sem leiða af orkupakkanum með tíð og tíma, til dæmis er varða breytingar á lögum um orkustofnun:
„Ef allt þetta bregst heldur baráttan áfram, það kemur orkupakki fjögur, kosningar og síðan næstu kosningar. Þá munum við biðja alla stjórnmálaflokka að gefa upp hver afstaða þeirra er til orkumála svo að kjósendur geti valið flokka. Þetta er sannarlega eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. Engin þjóð á meira undir raforkumálum en Íslendingar. Við erum tvöfalt meiri raforkuþjóð en Norðmenn miðað við íbúafjölda.“
Atkvæðagreiðslan hefst uppúr 10.30 í dag, en talið er að hún muni dragast á langinn, þar sem þingmenn muni vilja gera grein fyrir atkvæði sínu.