fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Sjáðu hlut ríkisins í verði á áfengi: „Það eru íslenskir stjórnmálamenn, sem ráða í raun áfengisverðinu í vínbúðinni“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 18. september 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær býsnaðist Bjarni Ben yfir verðinu á bjórnum á hótel Nordica líkt og Eyjan greindi fyrst frá. Tilefnið var gagnrýni Félags atvinnurekenda á hækkun áfengisgjaldsins um áramótin, en Bjarni benti þá á álagninguna hjá ferðaþjónustunni og öðrum söluaðilum áfengis, sem næmi allt að 370 prósentum, til skýringar á háu áfengisverði hér á landi.

Félag atvinnurekenda hefur nú reiknað nokkur dæmi um hlut ríkisins í verði áfengra drykkja. Tekin eru þrjú raunveruleg dæmi úr Vínbúðinni og sést að hlutur ríkisins er allt að 90%

Bjarni ekki nógu ábyrgðarfullur

„Þessar tölur sýna svart á hvítu að það eru íslenskir stjórnmálamenn, sem ráða í raun áfengisverðinu í vínbúðinni. Fjármálaráðherra reynir að beina athyglinni annað, en hann og aðrir þingmenn bera langmesta ábyrgð á því hvers vegna verð áfengis á Íslandi er svo hátt með því að leggja á það hæstu áfengisskatta í Evrópu – og þótt víðar væri leitað. Ráðherrann boðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs enn frekari hækkanir, annars vegar með 2,5% hækkun á áfengisgjaldi og hins vegar hækkun á álagningu ÁTVR, sem enn hefur ekki verið upplýst hvað verður mikil. Það þýðir ekkert fyrir fjármálaráðherra að reyna að vísa ábyrgðinni annað,“

segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. Hann nefnir að það sé ekki séríslenskt fyrirbæri að áfengisverð sé margfalt hærra á veitingastöðum en í vínbúðum.

„Það leikur enginn vafi á því að ofurskattar á áfengi eru meginskýring þess að áfengisverð er hátt á íslenskum veitingastöðum í alþjóðlegum samanburði, rétt eins og í vínbúðum.“

Hlutur ríkisins allt að 90%

Í sterku áfengi (vodki/gin) er hlutur ríkisins 90%, í léttvíni er hann 72% og í bjór er hann 61%. Í tilviki vodka- eða ginflöskunnar er hlutur heildsalans (framleiðanda eða innflytjanda) 564 krónur af 5.999. Af þeirri fjárhæð þarf að greiða framleiðslu vörunnar, flutning, geymslukostnað, laun starfsmanna o.s.frv. Í Noregi, þar sem áfengisskattar eru næsthæstir í Evrópu, kostar sambærileg flaska af sterku áfengi 5.058 íslenskar krónur, samkvæmt upplýsingum frá Vinmonopolet. Af þeirri fjárhæð tekur norska ríkið í sinn hlut 84,6%, eða 4.281 íslenska krónu. Norski heildsalinn hefur engu að síður úr mun hærri fjárhæð að spila en sá íslenski, eða um 777 íslenskum krónum, segir á vef FA.

 

Áfengisgjald er mishátt eftir því hvort um sterkt vín, léttvín eða bjór er að ræða. Áfengisgjöldin eru föst krónutala á einingu alkóhóls. Skilagjöld eru sömuleiðis krónutölugjöld, en þau eru 19,71 króna á glerflöskur stærri en 500 ml og 18,31 króna á minni glerumbúðir. Á alla áfenga drykki leggst 11% virðisaukaskattur. Álagning ÁTVR er ákveðin með lögum frá Alþingi og er 18% á drykki með 22% eða minni styrkleika en 12% á áfengi með meira en 22% styrkleika.

„Útsöluverð í ÁTVR er vegna hárra skatta á áfengi að meðaltali hærra en útsöluverð í vínbúðum í öllum öðrum Evrópuríkjum, þó með þeirri undantekningu að bjór er almennt dýrari í Noregi en hér á landi vegna hærri opinberra gjalda. Þetta telur FA nauðsynlegt að hafa í huga vegna ummæla Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að horfa þurfi til fleiri þátta en opinberra gjalda í umræðu um hátt áfengisverð á Íslandi, en Bjarni gerði álagningu veitingastaða á áfengi að umtalsefni,“

segir á vef FA.

Verð eftir hækkun

Á myndinni hér að neðan sést hvernig dæmið lítur út ef boðuð 2,5% hækkun áfengisgjalds gengur eftir um áramót. Ef verð vörunnar í vínbúðum ætti að haldast óbreytt, hækkar hlutur ríkisins af verðinu í 73% í tilviki léttvíns, í 92% þegar um sterkt áfengi er að ræða og í 62% í tilviki bjórs. Líklegast er þó að verðið hækki, annars þurfa innflytjendur og framleiðendur að taka á sig skertan hlut. Þá gæti léttvínsflaskan hækkað um u.þ.b. 50 krónur, sú sterka um tæplega 150 krónur og bjórflaskan um 6-7 krónur. Í þessu dæmi er EKKI búið að taka tillit til boðaðrar hækkunar á álagningu ÁTVR, en fjármálaráðuneytið hefur enn ekki svarað því hversu mikil hún verður. Allt stefnir því í talsverða hækkun á áfengi um áramótin, nema stjórnvöld sjái sig um hönd.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“