Útgáfufélagið Stundin ehf. skilaði rúmlega 10 milljóna króna afgangi af rekstri á árinu 2018, samkvæmt ársreikningi félagsins sem skilað hefur verið til Ríkisskattstjóra. Afkoman er fjórum milljónum króna jákvæðari en á árinu 2017, samkvæmt tilkynningu.
Bætist Stundin því í fámennan hóp fjölmiðlafyrirtækja sem eru réttu megin við núllið í rekstri sínum, en áður hafa borist fréttir af miklum taprekstri fjölmiðla á síðasta ári.
Tilkynning Stundarinnar:
Í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningi Útgáfufélagsins Stundarinnar kemur fram að afkoman er í samræmi við það markmið Stundarinnar að forðast hallarekstur og skuldsetningu til að viðhalda sjálfstæði ritstjórnar: „Helsta markmið félagsins er starfræksla óháðrar fjölmiðlaritstjórnar og forsenda þess er sjálfbær rekstur. Í því skyni verður haldið áfram að leggja höfuðáherslu á rekstur án halla eða skuldsetningar og mun umfang starfseminnar helst stýrast af stuðningi almennings með kaupum á áskrift,“ segir í skýrslunni.
Rétt er að taka fram að í ársreikningi útgáfufélags Stundarinnar fyrir síðasta ár koma fram fyrirvarar um óuppgerð dómsmál sem höfðuð hafa verið gegn Stundinni og starfsmönnum hennar. Þar á meðal er lögbannsmál Glitnis HoldCo gegn Stundinni, sem Stundin vann á yfirstandandi fjárhagsári.
Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Stundarinnar og annar ritstjóra hennar, segir að meirihluti tekna Stundarinnar sé vegna áskrifta. „Við erum þakklát fyrir að stærsti hluti rekstrartekna Stundarinnar spretti frá almennum borgurum sem hafa kosið að gerast áskrifendur. Þetta tryggir að rekstrarlegir hagsmunir Stundarinnar eru sem mest í samhengi við hagsmuni almennings.“
Ný stjórn var kjörin á aðalfundi útgáfufélags Stundarinnar sem fram fór nýverið. Við stjórnarkjörið var litið til þess að styrkja formlegt aðhaldshlutverk stjórnarinnar gagnvart starfsmönnum sem jafnframt eru eigendur.
Stundin er í dreifðu eignarhaldi og eru stærstu eigendur ritstjórarnir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson, vefhönnuðurinn Jón Ingi Stefánsson, sölustjórinn Heiða B. Heiðarsdóttir, fyrrverandi ritstjórinn Reynir Traustason og svo Snæbjörn Björnsson Birnir og Höskuldur Höskuldsson, með rúmlega 12 prósenta hlut hvert.
Í fráfarandi stjórn sátu Heiða B. Heiðarsdóttir, Jón Ingi Stefánsson og Reynir Traustason. Ný stjórn er skipuð tveimur af eigendum, sem þó eru ekki starfsmenn félagsins, og svo óháðum stjórnarformanni.
Nýr stjórnarformaður, Elín G. Ragnarsdóttir, hefur meðal annars rekið bókaútgáfu og stýrt fjölmiðlafyrirtæki. Stjórnarmaðurinn Höskuldur Höskuldsson hefur á undanförnum árum rekið innflutningsfyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. Stjórnarmaðurinn Egill Sigurðarson er stærðfræðingur og forritari, búsettur í London, menntaður frá Háskólanum í Reykjavík og Oxford-háskóla.
Stundin var stofnuð með hópfjármögnunarátaki í janúar 2015 og hafa nú verið gefin út 100 eintök í prentútgáfu. Frá því að Stundin kom fyrst út hefur enginn annar einkarekinn fjölmiðill fengið fleiri tilnefningar til blaðamannaverðlauna og ljósmyndaverðlauna. Stundin hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins í fyrra.