Marínó G. Njálsson, einn stofnenda Hagsmunasamtaka heimilanna, og virkur samfélagsrýnir á Facebook, telur maðk í mysunni hvað varðar nýútkomna skýrslu OECD um Ísland, þar sem staða hagkerfisins er sögð góð. Hafa stjórnvöld stært sig af skýrslunni, en í fyrirsögn fréttar um skýrsluna á vef stjórnarráðsins segir: Lífskjör á Íslandi með því besta sem þekkist
Veltir Marínó upp þeim möguleika í færslu á Facebook að skýrslan hafi verið „pöntuð“ og taka Jæja-samtökin, sem staðið hafa að fjölda mótmæla í gegnum árin, undir orð hans og deila pistlinum. Marínó telur skýrsluna ófullkomna:
„Eftir að hafa lesið skýrsluna, þá velti ég því fyrir mér hve mikið af skýrslunni var rituð í fjármálaráðuneytinu. Einnig furða ég mig á að töluleg gögn eru hluta til nokkuð gömul og hluta til ófullkomin á þann hátt að það vantar mikilvægar samanburðarupplýsingar,“
segir Marínó og minnist skýrslu sem hann segir Seðlabanka Íslands hafa pantað frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum:
„Fyrir hátt í 20 árum pantaði Seðlabanki Íslands skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nokkru síðar tók eitt minnsta hagkerfi í heimi með sjálfstæða mynt upp verðbólgumarkmið með fljótandi mynt án þess að undirbúa upptökuna svo nokkru nemur. Franek Razwadowsky, „landstjóri“ AGS á Íslandi, furðaði sig mikið á þessari ákvörðun og þegar honum var bent á að AGS hefði mælt með þessu, þá sagði hann að skýrslan hljóti að hafa verið pöntuð.“
Marínó telur upp margt sem lagt er til í skýrslunni og rímar fullkomlega við áherslur Sjálfstæðisflokksins:
- „Hvers vegna dettur OECD í hug að leggja til veggjöld núna, en ekki fyrir tveimur árum? Merkilegt líka, að vitna til eina landsins í heiminum, þar sem allar stærri vegframkvæmdir eru byggðar á veggjöldum, en ekki nágrannanna í Danmörku, þar sem bara allra stærstu framkvæmdir byggja á veggjöldum.
- Á sama hátt, hvers vegna dettur OECD allt í einu núna að leggja til fækkun öryrkja, en ekki fyrir tveimur árum? Merkilegt að umræða um ný almannatryggingalög séu uppi núna og styðji við viðhorf ríkisstjórnarinnar.
- OECD vill sameina sveitarfélög, sem vill svo til að ríkisstjórnin hefur lagt til.
- OECD vill að hlutur sjúklinga í heilbrigðiskostnaði aukist. Eitt af helstu markmiðum Sjálfstæðisflokksins í ansi mörg ár.“
Marínó segist ekki geta litið á skýrsluna sem hlutlausa:
„Verð að viðurkenna, að svona skýrslur eru ekki trúverðugar, ef þær gera ekkert annað en að endurspegla óskir stjórnvalda. Ég sá ekki EITT EINASTA atriði í skýrslunni, sem gekk gegn stefnu núverandi stjórnvalda. Kannski yfirsást mér það. Ég get ekki litið á þessa skýrslu OECD sem hlutlaust álit. Til þess fara ráðleggingar hennar of mikið saman við stefnu stjórnvalda. OECD setur niður við það að taka að sér hlutverk senditíkur stjórnvalda, alveg eins og AGS tók að sér að vera senditík Seðlabankans árið 2001. Þessar stofnanir eiga að vera sjálfstæðar í áliti sínu og vera óhræddar við að segja sannleikann.“