Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, má finna gagnrýni á íslenska menntamálakerfið sem og almannatryggingakerfið.
„Frammistaða í menntun er áfram veik, margir nemendur ljúka skyldunámi án þess að hafa nægjanlega grunnþekkingu. Staðan er jafnvel verri hjá börnum innflytjenda,“ segir í skýrslunni. Mælt er með því að kennsluaðferðir verði bættar og kennarar hafi aukið frelsi til endurmenntunar og starfsþróunar. Praktísk þjálfun á grunnskólastigi þurfi einnig að auka og bjóða upp á betri tungumálakennslu. Staðan sé svo að þrátt fyrir að Íslandi kosti meiru til í menntamálum heldur en meðal OECD-ríkið þá séu niðurstöður kannana á borð við PISA að benda til þess að gæði menntunarinnar hafi minnkað.
Í skýrslunni er einnig tekið fram að örorkulífeyrisþegar séu tvöfalt fleiri í dag en fyrir tuttugu árum síðan. Yfirvöldum er því ráðlagt að ráðast í endurskipulagningu á almannatryggingakerfinu og einblína frekar á endurhæfingarlífeyri sem miði að því að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn, sem og að setja strangari skilyrði fyrir örorkubótum en bjóða samtímis upp á úrræði til að halda fólki á vinnumarkaði. Gagnrýnt er að á Íslandi sé meiru kostað til við að halda uppi góðu almannatryggingakerfi, fremur en að verja fjármagninu í opinberar fjárfestingar.
„Síðan snemma á 9. áratug síðustu aldar hefur hlutfall þeirra sem fara á örorku meira en tvöfaldast og eru nú næstum 9 prósent landsmanna á starfshæfum aldri, á örorku. Þessa aukningu má að mörgu leyti skýra með fjölgun ungra einstaklinga sem fara á örorku vegna andlegra veikinda – um 38 prósent örorkulífeyrisþega- og einnig aukning meðal eldri einstaklinga með stoðkerfisvandamál.“
Í skýrslunni er bent á að sambærilegar aðstæður hafi komið upp í Sviss á 9. áratugnum. Þar réðust yfirvöld í endurskipulagningu almannatryggingakerfisins sem var framkvæmd í skrefum sem miðuðu að því að fækka nýjum umsækjendum um örorku og hvetja þá til að halda áfram, eða snúa aftur á vinnumarkað. Endurskipulagningin var stórt samstarfsverkefni heilbrigðis-, atvinnumála-, félagsmála- og menntamálakerfis. Liður í þessum aðgerðum var að endurskilgreina og þrengja skilyrði fyrir veitingu örorkulífeyris, að finna þá hópa einstaklinga sem eru í áhættu á að enda á örorku og koma á snemmtækri íhlutun til að fyrirbyggja örorku.
Þessi endurskipulagning bar erindi sem erfiði og kostnaður við almannatryggingakerfið minnkaði, sem og fækkaði nýjum umsækjendum.