fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

„Laug nýr dómsmálaráðherra á fyrsta degi í starfi?“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 11. september 2019 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, var í viðtali við RÚV á mánudag, eftir að ljóst var að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hygðist taka fyrir Landsréttarmálið. Aðspurð um hvort ekki þyrfti að leysa úr þeirri  réttaróvissu sem hér ríkti vegna þessa, sagði Áslaug nokkuð sem vakið hefur athygli þeirra sem líta Landsréttarmálið öðrum augum en sjálfstæðismenn. Áslaug fullyrti nefnilega að Hæstiréttur hefði komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir við Landsrétt hefðu verið löglega skipaðir:

Dómarar dæma sjálfir um sitt hæfi, og það er kannski eðlilegt að þeir fái tækifæri til að meta stöðuna í ljósi þessarar niðurstöðu. Hæstiréttur hefur auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að þeir eru löglega skipaðir, síðan er það auðvitað bara praktískt úrlausnarefni hvernig best má tryggja starfssemi Landsréttar,“

sagði Áslaug orðrétt.

Var Áslaug að ljúga ?

Jæja-hópurinn, sem staðið hefur fyrir mýmörgum mótmælum í gegnum árin, vekur athygli á ummælum Áslaugar á Facebook og spyr hvort hún hafi verið að ljúga á fyrsta degi í nýju starfi.

Fyrir neðan er síðan birt setning úr dómi Hæstaréttar frá 2017, hvar segir:

„Var málsmeðferð ráðherra að þessu leyti því andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga.“

Lagatæknilegt smáatriði notað til útúrsnúninga

Lögmaðurinn Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði við Eyjuna að þetta væri einfaldlega línan hjá Sjálfstæðisflokknum, að snúa út úr dómi Hæstaréttar með lagatæknilegum smáatriðum og gera þau að aðalatriði málsins:

„Þetta er frasi sem sjálfstæðismenn hafa haldið uppi síðan MDE kvað upp sinn dóm. Hæstiréttur komst auðvitað að þeirri niðurstöðu ekki hefðu verið farið að lögum við skipan dómara, en beittu síðan lögskýringu  sem alltaf er brúkuð í starfsmannamálum, sem er sú að sá sem fer í mál vegna skipunar eða ráðningar í  starf, hann gengur ekki í starfið í staðinn. Þetta er bara svona starfsmannaréttur 101, þú færð bætur þó það sé viðurkennt að ekki hafi verið rétt staðið að ráðningunni. Og þarna segir dómurinn að þrátt fyrir að Sigríður hafi brotið lög við val sitt, þá hefði eftirleikurinn verið í samræmi við lög, sem er síðan álitamál og verður gaman að sjá hvernig yfirdeild MDE tekur á. Því Hæstiréttur talar um í dómnum varðandi meðferð Alþingis, að þar sem forsetinn endar á því að stimpla málið og samþykkja, þar sem það hafi farið sína réttu boðleið leið í kerfinu, sé skipanin lögum samkvæmt. En það er auðvitað bara útúrsnúningur að segja að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir séu löglega skipaðir, enda skipanin sögð fara gegn lögum í dómnum.“

Áslaug aðeins skásti kosturinn

Helga Vala var ein fjögurra þingmanna Samfylkingarinnar sem óskuðu Áslaugu Örnu til hamingju á samfélagsmiðlum þegar ljóst var að hún yrði nýr dómsmálaráðherra. Líkt og Eyjan greindi frá fékk Áslaug ekki eins margar hamingjuóskir úr sínum eigin þingflokki og þótti mörgum kratanum þetta fullmikið af hinu góða.

Helga Vala ítrekaði þó við Eyjuna að þær væru engar skoðanasystur:

„Við Áslaug vorum saman í viðtali á sínum tíma þegar niðurstaða MDE lá fyrir. Þar kom alveg í ljós hvað við vorum algerlega ósammála. Hún fór beint í lagatúlkun Sjálfstæðisflokksins, að erlendur dómstóll hefði ekkert vægi hér og svona, engin auðmýkt. Það er lína Sjálfstæðisflokksins. Og ég hef enga trú á því að hún muni ekki í einu og öllu fara að línu Sjálfstæðisflokksins í því sem  hún er að gera. Ég skrifaði í minni færslu þegar ég óskaði henni til hamingju með ráðherraembættið, að hún væri skársti kosturinn af þeim sem nefndir voru. En viðbrögð hennar við útlendingamálum og dómi MDE fylla mig ekki bjartsýni á að þar fari sjálfstæður hugur.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK