fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Bæjarstjóri gagnrýnir kollega sinn fyrir skuldbindingafælni í Ástarvikunni: „Dæmigerður Bolvíkingur“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 11. september 2019 14:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Norðanverðir Vestfirðir, sem heimamenn kalla gjarnan Villta vestrið, loga nú í deilum vegna lögbundinna sameiningaáforma ríkisstjórnarinnar. Bolvíkingar hafa ávallt verið andvígir öllum sameiningaráformum við Ísafjarðarbæ og bæjarstjóri Bolungarvíkur, Jón Páll Hreinsson, sagði við RÚV í gær að nú væri komin auka hvatning til þess að fá heimamenn til að fjölga sér, en nú stendur einnig yfir hin víðfræga Ástarvika í Bolungarvík, sem hefur það að meginmarkmiði að fjölga heimamönnum, sem telja nú um 950 manns:

„Það hefur verið lagt til af ráðherra að þau sveitarfélög sem séu undir 1000 íbúum sé gert að sameinast. Þannig okkur vantar 50. Þess vegna er ágætt tilefni að hlaða í ástarviku og sjá hvort við getum ekki fjölgað eitthvað,“

sagði Jón Páll.

Elska Ísfirðinga

Jón Páll nefndi einnig að þó svo honum hugnaðist ekki sameiningaráform við Ísafjörð, væri mikil ást á milli Bolvíkinga og Ísfirðinga:

„Í ljósi þeirrar umræðu höfðum við áhyggjur af því – því við erum mjög mótfallin þessum sameiningarhugmyndum – að Ísfirðingar fengu það á tilfinninguna að við værum hætt að elska þá. Sem er náttúrulega alls ekki satt. Þótt við viljum ekki sameinast þeim erum við alls ekki hætt að elska þá. Þannig að eitt  þema ástarvikunnar í ár er „Við elskum Ísfirðinga“.“

Sambandsfælni

Bæjarstjóri Ísafjarðar, Guðmundur Gunnarsson, skrifaði færslu á Facebook í kjölfar þessara ummæla Jóns Páls, þar sem hann setur málið í samhengi út frá sjónarhóli Ísfirðinga, en bæjarstjórn Ísafjarðar er fylgjandi öllum sameiningaráformum:

*Dæs*
Dæmigerður Bolvíkingur.
Horfir glaseygður í augun á manni á balli og segist elska mann. Sendir væmin skilaboð að næturlagi. Vill bjóða manni í ísbíltúr á stífbónuðum bíl með vindskeið. Segist ekki sjá sólina fyrir manni. Raular vangalag með Sálinni í Óshlíðargöngunum.

Auðvitað veðrast maður allur upp. Fer að gera plön. Hugsa um framtíðina. Erfingjana.
Í ástarbríma nefnir maður samband og segist vilja kynna Bolvíkinginn fyrir mömmu.

Nei, nei. Viti menn. Þá fer allt í baklás. Of mikil skuldbinding. Bolvíkingurinn vill ekki binda sig. Vill deita fleiri. Fara í interrail um Evrópu. Segist þurfa að finna sig. “Þetta er ég, ekki þú”.

Er nema von að maður dæsi og blóti flagaranum úr Víkinni? Samt vonar maður innst inni að hann þroskist. Vaxi upp úr þessum órökstudda ótta við skuldbindingu.

Er einhver von? Veit það ekki. Elska hann samt ?

Gleðilega ástarviku ❤️

Þess má geta, til að „skýra“ málið enn frekar, að bæjarstjóri Bolungarvíkur er borinn og barnfæddur Ísfirðingur og bæjarstjóri Ísafjarðar er borinn og barnfæddur Bolvíkingur.

Sameining verði lögbundin

Í þingsályktunartillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem jafnframt er stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga landsins, er lagt til að lágmarksíbúamark sveitarfélaga verði hækkað í skrefum og verði 1000 manns fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2026.

Einnig er lagt til að auka fjárstuðning við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fyrir sameiningar, en markmiðið er að þau verði sjálfbær og íbúar fái allir jafnt aðgengi að þjónustu.

Þar segir hinsvegar einnig að íbúar viðkomandi sveitarfélaga fái ekki að kjósa um sameiningaráform sinna sveitarfélaga, heldur að sameining sveitarfélaga verði lögbundin.

Talsmenn margra sveitarfélaga sem eru undir 1000 manns telja að með því sé verið að þvinga minni sveitarfélög til sameiningar með ólýðræðislegum hætti, þar sem íbúar fái engu um ráðið. Þá séu minni sveitarfélög gjarnan með betri fjárhagsstöðu en þau stærri og því vandséð hvaða hag þau hafi af slíkum sameiningum, auk þess sem sem ríkið hafi vanfjármagnað ýmsa stærri málaflokka í gegnum árin og slík mál leysist ekki með sameiningu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt