Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og vitnar í nýja könnun sem Zenter rannsóknir gerðu. Fram kemur að níu af hverjum tíu þeirra sem sögðust myndu kjósa Miðflokkinn segir orkupakkamálið hafa haft mikil áhrif á sig. Hjá Flokki fólksins á það sama við um tvo þriðju hluta kjósenda. Annars virðist málið ekki hafa haft mikil áhrif á hina flokkana.
Fylgi Framsóknar mælist nú 6,2% en í síðustu þingkosningum fékk hann tæplega 11% atkvæða. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 21,5% en hann fékk 25,3% atkvæða í síðustu þingkosningum. Fylgi Samfylkingarinnar mældist 13,9% en flokkurinn fékk 12,1% atkvæða í síðustu þingkosningum. Miðflokkurinn mælist með 12,9% fylgi en fékk 10,9% í síðustu þingkosningum. Vinstri græn mælast með 12,5% fylgi en fengu 16,9% í síðustu kosningum. Fylgi Pírata mælist 12,3% en var 9,2% í síðustu kosningum. Fylgi Viðreisnar mælist nú 11,4% en var 6,7% í síðustu kosningum. Fylgi Flokks fólksins mælist nú 4% en var 6,9% í síðustu kosningum.