Framlög til umhverfismála hækka um rúman einn milljarð króna milli áranna 2019 og 2020 samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og greint er frá í tilkynningu. Er þá ekki meðtalin hækkun vegna launa- og verðlagsbóta sem nema tæpum 400 milljónum króna.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að auka framlög til til loftslagstengdra verkefna á árinu 2020 um 455 milljónir króna. Er það í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna og fjármálaáætlun 2020-2024. Einkum er um að ræða verkefni í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Þá er einnig gert ráð fyrir að auka framlög til uppbyggingu innviða, rannsókna og vöktunar á svæðum í íslenskri náttúru um 255 milljónir króna. Enn fremur verða framlög til landvörslu auknar um 270 milljónir króna.
Framlög vegna hringrásarhagkerfisins aukast um tæpar 100 milljónir króna á árinu 2020.
Markmiðið er að draga úr sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og halda verðmætum eins lengi og hægt er í umferð.
Í heildina hafa fjárveitingar til umhverfismála aukist um rúm 24% að raunvirði það sem af er kjörtímabilinu og gert er ráð fyrir enn frekari aukningu á komandi árum.