Helgi Bernódusson, fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis, lýkur störfum nú um mánaðamótin og kvaddi starfsfólk þingsins í Skála Alþingis í dag við hátíðlega athöfn. Hann afhenti Rögnu Árnadóttur, sem tekur við starfi skrifstofustjóra 1. september, lyklana að húsakynnum þingsins.
Helgi var ausinn lofi í athöfninni, og Þorsteinn Magnússon, varaskrifstofustjóri, sagði í gamansömum tón að Helgi væri nú enginn venjulegur maður:
„Hann er stofnun í sjálfu sér“ (He’s an institution in him self“)
Bætti hann við að Helgi og Alþingi væru órjúfanleg heild.
Helgi Bernódusson, sem varð sjötugur nú í ágústmánuði, hefur starfað á skrifstofu Alþingis óslitið í 36 ár. Hann var ráðinn skrifstofustjóri Alþingis í janúar 2005 en var áður aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis frá 1996. Frá 1989 til 1996 var hann forstöðumaður þingmálasviðs og staðgengill skrifstofustjóra frá 1993. Helgi var í fullu starfi hjá Alþingi frá því hann var ráðinn deildarstjóri á skrifstofu þingsins 1983, en hann var enn fremur í hlutastarfi hjá Alþingi 1973–1978 samhliða námi.