Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, fer fram á það við dómsmálaráðuneytið að kosningalögum verði breytt og að kosningaeftirliti verði komið á í næstu borgarstjórnarkosningum og að ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, verði gert viðvart. Fer hún fram á þetta í bókun sinni á fundi borgarráðs í dag.
Tilefnið er úrskurður dómsmálaráðuneytisins um að taka kæru hennar vegna síðustu borgarstjórnarkosninga ekki til meðferðar vegna lagatæknilegra atriða:
„Er því beint til dómsmálaráðuneytisins ásamt því að kosningaeftirliti verði komið á í næstu borgarstjórnarkosningum og hvatt er til þess að ráðuneytið geri Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE viðvart. Kosningaeftirlitinu er ætlað að tryggja frjálsar og lýðræðislegar kosningar.“
Vigdís segir meirihluta borgarstjórnar rúinn trausti og að vill breyta kosningalögum á þann veg að hægt verði að ógilda úrslit þeirra eftir að sjö daga kærufrestur er liðinn, en til hans var vísað í niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins:
„Alvarlegar athugasemdir dómsmálaráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar og Persónuverndar sem bárust borgaryfirvöldum fyrir kosningar undirstrika alvarleika málsins. Þær voru að engu hafðar og sífellt fundnar nýjar hjáleiðir til að hrinda verkefninu í framkvæmd og var því um einbeittan ásetning að ræða að snerta við þessum hópum. Persónuvernd sem er eftirlits- og undirstofnun dómsmálaráðuneytisins úrskurðaði um lögbrot á persónuverndarlögum. Meirihlutinn er rúinn trausti og situr á valdastólum á grunni vafans um hvernig úrslit kosninganna væru hefði ekki verið farið í ólöglegar snertingar við kjósendur. Ljóst er að breyta þarf lögum á þann hátt að hægt sé að ógilda kosningar komist upp um kosningasvindl eftir sjö daga kærufrest laganna.“