fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Óttast um börnin og gagnrýnir „glansmyndina“ Skóla án aðgreiningar: „Hélt ég yrði tekin og flengd“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 21. ágúst 2019 11:27

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hélt ég yrði tekin og flengd þegar ég, í aðdraganda kosninga í borginni leyfði mér að gagnrýna þessa glansmynd sem kallast Skóli án aðgreiningar. Það gerðist hins vegar ekki. Þvert á móti hafa ótal margir haft samband við mig og sagt að þeir tækju undir gagnrýna mína og Flokks fólksins á hvað þetta kerfi sem er margplástrað og bútasaumsbætt er ekki að ná að mæta þörfum allra barna.“

Þetta skrifar Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins í gær, en Skóli án aðgreiningar er úrræði Reykjavíkurborgar fyrir börn sem þurfa sérstakan stuðning í námi og nær til allra grunnskóla borgarinnar:

„Í skóla án aðgreiningar er sérhverju barni mætt í námi og félagsstarfi óháð atgervi þess og stöðu. Fullgild og virk þátttaka allra barna og virðing fyrir réttindum þeirra er leiðarljós reykvískra grunnskóla,“

segir á vef Reykjavíkurborgar.

Hugmyndafræði sem virkar ekki

Hinsvegar eru ekki allir á eitt sáttir um meint ágæti þessa úrræðis. Í rannsókn Huldu Gunnarsdóttur frá 2016, þar sem tekin voru viðtöl við 11 foreldra barna í 3.-10. bekk voru þeir allir sammála um að „hugmyndarfræðin skóli án aðgreiningar virkaði ekki og börn með námserfiðleika fái ekki sömu tækifæri og börn sem ekki eru með námserfiðleika. Börn með námserfiðleika geta ekki sýnt eða nýtt sína styrkleika í menntakerfi sem gerir ráð fyrir að öll börn þurfi að vera eins,“ líkt og segir í útdrætti rannsóknarinnar.

Meirihlutinn í afneitun

Kolbrún segir að meirihlutinn sé orðinn meðvirkur vandamálinu og ekkert úrræði sé til boða fyrir nemendur með djúpstæðan vanda:

„Nú þegar skólar eru að byrja þá er manni hugsað til barna sem líða illa í skólanum svo ekki sé minnst á önnur vandamál eins og ástand skólabygginga og mygluna sem veikt hefur ónæmiskerfi nemenda og kennara undanfarin misseri.Valdhafar, meirihlutinn í borgarstjórn neita að horfast í augu þá staðreynd að Skóli án aðgreiningar eins og honum er stillt upp er ekki að virka fyrir öll börn. Dæmi eru um að börnum hafi verið úthýst úr skólakerfinu vegna djúpstæðs vanda, send heim og ekki boðið neitt úrræði fyrr en eftir dúk og disk og þá fyrst eftir að foreldrar hafa gengið þrautagöngu innan kerfisins. Hvað þarf margar kannanir og upphróp til að meirihlutinn hætti að stinga hausnum í sandinn og horfist í augu við að hópur barna sem forðast skólann sinn fer stækkandi, barna sem sýna einkenni kvíða og depurðar sem rekja má beint til líðan í skóla þar sem þau hafa ekki fundið sig meðal jafningja? Flokkur fólksins hefur neitað að taka þátt í meðvirkni með þessum vanda sem fylgir stefnu borgarinnar í skólamálum „Skóli án aðgreiningar“ og er tilkominn vegna þess að öllum börnum er ætlað að fitta inn í hinn eina og sama ramma en fjármagn ekki látið fylgja. Eilífir plástrar hafa verið í gangi sem kosta óhemju mikið sbr. sífellt er sett meira í sérkennslu án þess að árangursmæla hana til að kanna hvort hún sé að skila sér til barnanna.“

Ekki hlustað á önnur úrræði

Kolbrún segir að meirihlutinn hlusti ekki á tillögur sínar í skólamálum:

„Ég hef verið með margar tillögur er varða skólamálin þar með talið að fjölga sérskólaúrræðum svo foreldrar hafi eitthvert val. Við megum aldrei gleyma að foreldrar þekkja börnin sín best og skynja fyrst af öllum þegar eitthvað úrræði er ekki að virka fyrir barnið þeirra. Klettaskóli er sprunginn og Brúarskóli getur aðeins tekið þau sem líða hvað allra allra verst í almennum skóla. Ekkert af þessum hugmyndum hefur hlotið náð fyrir augum meirihlutans.“

Kolbrún lagði meðal annars til eftirfarandi í bókun:

Tillaga um að skóla- og frístundarráð kalli markvisst eftir upplýsingum frá foreldrum sem telja að börn þeirra fái ekki þörfum sínum mætt í hinum „almenna skóla“ byggðan á stefnu borgarinnar sem kallast Skóli án aðgreiningar.

Eins og Flokkur fólksins hefur margítrekað þá er verið að taka áhættu með andlega heilsu barna ef þau eru sett í aðstæður til langs tíma þar sem þau fá ekki notið sín í. Barn sem upplifir sig ekki vera meðal jafningja og finnur sig einangrað er í áhættu með að þróa með sér depurð og kvíða. Eins og fram hefur komið m.a. í könnun Velferðarvaktarinnar er hópur barna sem neitar að fara í skólann vegna vanlíðan sem þau tengja skólanum. Hópurinn hefur farið stækkandi undanfarin ár. Þessi börn geta verið alla ævi að byggja sig upp eftir áralanga veru í skólaaðstæðum sem ekki hentar þeim.

Greinargerð:

Biðlisti í flest öll sérskólaúrræði hvort sem eru deildir eða skólar er langur og jafnvel þótt kennarar, foreldrar og fagfólk metur svo að barn eigi heima í sérúrræði þá fær það ekki þar inni. Það er mikilvægt að Skóla- og frístundarráð viti hvað mörg börn eru í þessum aðstæðum og heyri frá foreldrum þeirra hvað þeir telji að þurfi að breytast í aðstæðunum og hvaða og hvernig úrræði henti barni þeirra til að það geti notið skólagöngu sinnar til fulls.

Stofna átti til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla 2013 en aðeins einn er starfræktur í dag  2019

Úr skýrslu 2012 bls. 6 sjá viðhengi

„Stofnað verði til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla. Fyrsti þátttökubekkurinn taki til starfa haustið 2013 og hinir með tveggja ára millibili þannig að allir bekkirnir verði farnir að starfa haustið 2019“

Spurt er af hverju hefur borgarmeirihlutinn/Skóla- og frístundarráð ekki staðið við áætlun sína sem birt er í þessari skýrslu frá 2012 um að stofna til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla?
Allir fjórir bekkirnir ættu að vera starfandi nú í haust en aðeins einn bekkur er starfræktur. Allt of mörg börn kvarta yfir vanlíðan í skólanum, skóla sem á að vera fyrir alla og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri. Foreldrar hafa stigið fram og sagt skólann ekki vera að mæta þörfum barna sinna og óska eftir að fá aðgang að sérskólum borgarinnar. Þangað inn er eins og fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga. Báðir sérskólarnir eru löngu sprungnir og hefur Flokkur fólksins lagt til stækkun þeirra og fjölgun sambærilegra úrræða, allt tillögur sem hafa verið felldar eða vísað frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“