Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vandar Samtökum atvinnulífsins ekki kveðjurnar í pistli á Facebook í dag. Tilefnið er að VR fær ekki að skipta út stjórnarmönnum sínum í Lífeyrissjóði verslunarmanna. Telur Ragnar að atvinnurekendur eigi að víkja úr stjórnum lífeyrissjóðanna og að SA sé í vegferð sem eigi sér ekki fordæmi, en Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar LV, tilkynnti Ragnari bréfleiðis í gær að hún hygðist ekki boða til stjórnarfundar með nýrri stjórn, þar sem kanna þyrfti lögmæti ákvörðunar skipunaraðila.
„Eitthvað hefði nú heyrst í SA ef málinu væri öfugt farið,“ segir Ragnar sem telur að eftirlaunasjóðir og fyrirtæki í þeirra eigu, séu „misnotaðir í braski atvinnulífsins.“
„Það er skiljanlegt að SA vilji halda áfram að hafa sjóðina nokkurn veginn útaf fyrir sig svo hægt sé að halda braskinu áfram með peninga og fjármuni launafólks. Í það minnsta án afskipta verkalýðshreyfingarinnar. Inngrip Guðrúnar Hafsteindóttur formanns Samtaka Iðnaðarins og markaðsstjóra Kjörís, eru í eðli sínu ekkert nema valdarán og gróft brot á samþykktum sjóðsins með því að neita skipunaraðilum að skipa í stjórn sjóðsins,“
segir Ragnar Þór og bætir við:
„Hún telur sig geta stjórnað því hverjir koma inn í stjórn sjóðsins fyrir hönd þeirra sem skipa hana, sem er án fordæma. Viljum við virkilega að atvinnurekendur stjórni lífeyrissjóðunum okkar, peningum vinnandi fólks og lífeyrisþega? Þetta er aðeins brot af því sem fær að viðgangast innan sjóðanna og því ekki að furða hörð viðbrögð SA við afskiptum VR að skipun í stjórnina.“
Ragnar spyr af hverju SA vinni svo harkalega gegn því að verkalýðshreyfingin vakni af „værum blundi“ innan stjórnar sjóðsins og tekur dæmi um tengls Icelandair við lífeyrissjóðinn og SA:
„Tökum eitt dæmi af fjölmörgum um tengsl SA við lífeyrissjóðina og fjárfestingar þeirra. Icelandair group er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna en fyrrum forstjóri fyrirtækisins Björgúlfur Jóhannsson var einnig formaður SA. Hjá Icelandair störfuðu einnig Halldór Benjamín Þorbergsson og Davíð Þorláksson sem einnig stýrðu Lindarvatni ehf. (félagi sem reisir lúxushótel á Landsímareitnum). Fyrrum stjórnarformaður Lindarvatns var fjármálastjóri Icelandair group, Bogi Nils Bogason núverandi forstjóri Icelandair group. Í desember 2014 kaupir Dalsnes ehf. Lindarvatn ehf. sem á Landsímareitinn af Pétri Þór Sigurðssyni hrl. á 930 milljónirkr. samkvæmt ársreikningi Dalsnes ehf. fyrir árið 2014. Sem þýðir að 50% hlutur var 465 milljóna króna virði í viðskiptunum. Átta mánuðum síðar eða í ágúst 2015 kaupir Icelandair 50% hlut í Lindarvatni ehf. á 1.870 milljónir króna ef marka má skráð virði fjárfestingarinnar samkvæmt ársreikningum Icelandair 2015 en kaupverðið var sagt trúnaðarmál á sínum tíma. Það þýðir að samkvæmt verðmati Icelandair og kaupverði þess hafði virði félagsins fjórfaldast á aðeins 8 mánuðum.
En hvernig getur virði félags aukist svo mikið á svo stuttum tíma? Ein af ástæðum þess var að Icelandair hotels (Sem var í eigu Icelandair group) gerði 25 ára leigusamning um rekstur hins óbyggða hótels. Þ.e. Icelandair eykur verðgildi félagsins gríðarlega með leigusamningi og kaupir svo helminginn í félaginu á fjórföldu verði. Af hverju gerði félagið ekki bara leigusamninginn og lét aðra um áhættuna? Hvað bjó raunverulega að baki?“
Ragnar segir allar líkur á að á að Icelandair hafi nú þegar tapað 1,87 milljarði króna á fjárfestingunni þar sem engir peningar virðast vera eftir til framkvæmda af þeim 4 milljörðum sem lífeyrissjóðirnir voru fengnir til að setja í verkefnið í formi skuldabréfakaupa:
„Sjóðirnir hafa reyndar lýst því yfir að ekki verði settir meiri peningar í verkefnið. Þannig að milljarðarnir fjórir eru búnir sem fóru að mestu í að endurfjármagna skuldir Lindarvatns og það er varla byrjað að steypa upp framhlið hótelsins. Ljóst er að verkefnið var gríðarlega vanáætlað í tíma og kostnaði og einhverjir hljóta að bera ábyrgð á því. Framkvæmdir virðast keyrðar á hraða snigilsins til að allt líti út fyrir að vera slétt og fellt og í fullum gangi þó öllum hljóti að vera ljóst að hótelið opnar ekki eftir rúmt ár eins og stöðugt er haldið fram.Svo berast fréttir af verktökum sem ekki fá greidda reikninga sem sendir eru á Lindarvatn. Okkur ætti nú að vera ljóst af hverju Lindarvatn var tekið út úr viðskiptunum með Icelandair hotels en fnykurinn af verkefninu hefur greinilega fundist alla leið til Asíu. Þá má leiða að því líkum að SA menn hafi beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir keyptu skuldabréf (lánað) í verkefninu í ljósi þess að kjörin sem í boði voru á þeim tíma voru í engu samræmi við gríðarlega áhættu verkefnisins og þá staðreynd að verkefnið var langt frá því að vera full fjármagnað.“
Ragnar segir að tvo til þrjá milljarði vanti til að klára verkefnið, líklega meira og spyr hvaðan þeir eigi að koma. Nefnir hann að eftirlaunasjóðir séu misnotaðir í braski og bralli atvinnulífsins:
„Í desember 2016 kippir Björgúlfur (þáverandi forstjóri Icelandair og formaður SA) ábyrgðarmönnum Lindarvatns ehf. og starfmönnum Icelandair group, þeim Halldóri Benjamín og Davíð Þorlákssyni á nýjan starfsvettvang innan SA. Bogi Nils fer í forstjórastól Icelandair og við formennsku stjórnar Lindarvatns tekur Árni Helgason lögmaður og fyrrum framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður Heimdallar. En hans nafn kemur upp við nánari skoðun á snúningnum sem tekinn var á almenningshlutafélaginu Icelandair í kringum viðskiptin með Lindarvatn, en félag (MB2015 ehf.) í hans eigu fékk greiddar 456 milljónir króna í kringum viðskiptin á árinu 2015, sem hlýtur að teljast væn summa fyrir dagsverkið. Nú vantar að lágmarki tvo til þrjá milljarða til að klára verkefnið, líklega miklu meira.
Hvaðan eiga þeir peningar að koma? Mun núverandi forstjóri Icelandair group láta klára framkvæmdina, hvað sem það kostar, á kostnað Icelandair, til að almenningur átti sig ekki á því hvernig eftirlaunasjóðirnir okkar, og fyrirtækin í þeirra eigu, eru misnotuð í braski og bralli atvinnulífsins? Þannig gæti heildartap Icelandair group af verkefninu étið upp megnið af því sem salan á Icelandair hotels átti að skila inn í reksturinn. Já þetta eru djöfulsins snillingar eins og segir í frægum áramótasöng.“