„Að vera á biðlista í vikur, mánuði, ár eða lengur er ömurleg lífsreynsla sem veldur líkamlegu og andlegu tjóni, sem er í mörgum tilfellum aldrei hægt að laga. En að þetta sé orðinn daglegur viðburður hjá þúsundum veikra einstaklinga í meira en 25 ár er fáránlegt og óásættanlegt með öllu,“
segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins í grein í Morgunblaðinu í dag.
Guðmundur situr í velferðarnefnd Alþingis og fékk bréf frá sjúklingi á hjarta- og lungnadeild á Landspítalanum við Hringbraut, sem, hafði beðið í margar vikur eftir hjartaaðgerð, eftir að henni hafði verið frestað. Þar segir að þetta sé algengt, og gerist ítrekað, en hafi mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
Dregur hann heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, til ábyrgðar:
„Þegar veikt fólk hefur verið á biðlista eftir hjartaaðgerð í mánuð eða lengur þá á strax að hringja öllum viðvörunarbjöllum hjá heilbrigðisráðherra og yfirstjórn Landspítalans. Þegar veikt fólk hefur verið á biðlista í 30-40 daga eftir lífsnauðsynlegri hjartaaðgerð er biðin ekki bara farin að vera verulega slæm, heldur er fólkið komið í lífshættu.“
Guðmundur Ingi, sem sjálfur er öryrki, lýsir því að hann hafi sjálfur verið á biðlista árið 1995, þegar líf hans hékk á bláþræði:
„Var það vegna umfjöllunar fjölmiðils sem ég fékk aðgerðina loksins og sagan endurtók sig aftur 1997. Í dag, 25 árum seinna, er allt óbreytt og líf fólks hangir enn á bláþræði og alvarlega veikt fólk á biðlista leitar í fjölmiðla og allra leiða til að lifa af veruna á biðlistanum.“
Guðmundur spyr hvað kerfið eða ríkisstjórn hvers tíma sé að gera alvarlega veiku fólki á biðlistum og aðstandendum þeirra:
„Jú, valda þeim skaða með óþarfa lyfjainntöku mánuðum eða árum saman og valda börnum einnig skaða við að þurfa að horfa upp á föður, móður, afa eða ömmu þeirra í lyfjavímu, sárkvalin og bálreið á biðlista eftir aðgerð. Ástæða þess að hjartaaðgerðum er ítrekað frestað í vikur, mánuð eða lengur er sú að gjörgæslan getur ekki tekið við fólki eftir að aðgerðinni er lokið. Ástæðan er of fá rúm á gjörgæslunni og það stoppar aðgerðirnar og þá einnig skortur á gjörgæsluhjúkrunarfræðingum vegna sumarleyfa og fleira og fleira.“
Guðmundur segir að tími sé til kominn að finna lausn á vandanum í heilbrigðiskerfinu, þar sem vandamálin hafa lengi legið ljós fyrir:
„Er ekki kominn tími til að biðlistar með lífshættulega veiku fólki heyri sögunni til og við öll sem ábyrgð berum á ástandinu tökum höndum saman og finnum lausn strax? Hvers vegna er skortur á gjörgæsluhjúkrunarfræðingum? Er það vegna óviðunandi vinnuálags og þá afleiðingin af því kulnun í starfi? Er þá ekki fáránlegt að eyðileggja sumarleyfið hjá hjúkrunarfræðingunum og valda enn meira álagi? Ef þetta er ástæðan fyrir biðlistunum, semjum þá við hjúkrunarfræðingana og aðra sem málið varðar og það strax. Lífið liggur við.“