Baráttan milli hægrimanna og vinstrimanna hefur gjarnan farið fram á grundvelli hagfræðinnar, þar sem hagvöxtur er ýmist sagður besti mælikvarði efnahagsmála þjóða og lífskjaraviðmiða, eða gagnlítil mæling þar sem hún taki ekkert tillit til lífshamingju, vellíðunar, auðlindanotkunar eða tekjuskiptingar. Hægri menn hafa því haldið hagvexti sérstaklega á lofti í gegnum tíðina þegar vel árar, meðan vinstrimenn hafa viljað líta til annarra þátta.
Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi, gerir áhugverða samantekt á hagvexti í löndum helstu hetja hægrimanna í gegnum tíðina og setur í samhengi við hagvöxtinn hjá erkióvini hægrisins, Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela:
„Með þessum samanburði er ég ekki að halda því fram að Hugo Chavez hafi verið góður forseti. Aðeins að benda á að þegar nýfrjálshyggjupáfarnir hallmæla honum verður að hafa í huga að þau Thatcher, Reagan og Davíð voru miklu verri. Alla vega þegar hagvöxturinn er notaður sem mælikvarði, en nýfrjálshyggjupáfar láta oft sem sá mælikvarði sé algildur,“
segir Gunnar Smári.
Samantektin er eftirfarandi:
Margraet Thatcher var forsætisráðherra Breta í rúm ellefu ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Bretlandi um 27,7% en á jafnlöngum tíma þar á undan um 32,4% og ellefu árin þar á undan um 36,7%. Hvað sem Thatcher gerði þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.
Ronald Regan var forseti Bandaríkjanna í átta ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Bandaríkjunum um 18,1% en átta árin þar á undan um 22,1% og átta árin þar á undan um 24,6%. Hvað sem Reagan gerði þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands í þrettán ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann á Íslandi um 31,7% og hrundi síðan stuttu síðar. Þrettán árin fyrir Davíðstímann var hagvöxtur á mann 25,6%, þrettán árin þar á undan um 60,1% og þrettán árin þar á undan um 74,3%. Hvað sem Davíð gerði þá var það ekki gott fyrir hagvöxtinn.
Hugo Chavez var forseti Venesúela í ellefu ár. Á þeim tíma óx hagvöxtur á mann í Venesúela um 35,7% en ellefu árin þar á undan hafði landsframleiðsla á mann í Venesúela dregist saman um 15,4% og ellefu árin þar á undan dróst landsframleiðslan einnig saman, um 10,1%, en nýfrjálshyggjan hafði leikið Venesúela illa eins og mörg önnur lönd Suður-Ameríku. Hvað sem Chavez gerði þá var það gott fyrir hagvöxtinn.