Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur forsætisráðuneytisins frá 2010-2018, nú hjá Capacent, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, hvar hann kallar eftir einfaldara Íslandi, með öðrum orðum sameiningu sveitarfélaga og fjölskipuðum ráðuneytum, sem hefur ekki verið reyndin hingað til.
Hann rekur það hvernig veruleikinn í stjórnsýslunni er hér á landi, þar sem búa rétt um 357 þúsund manns, með níu ráðuneytum, 72 sveitarfélögum og 160 ríkisstofnunum, sem sé allt of mikið og flókið apparat fyrir svo fámenna þjóð:
„Á þeim árum sem greinarhöfundur hefur starfað innan tveggja ráðuneyta í Stjórnarráðinu að auknu samtali og samhæfingu innan Stjórnarráðsins og milli stjórnsýslustiga hefur oftar en ekki blasað við flókinn veruleiki er kemur að stefnu, fjármagni og árangri í ýmsum verkefnum. Sú hugsun sem ósjaldan hefur fylgt greinarhöfundi heim af þeim fjölmörgu samráðsfundum sem farið hafa fram á milli ráðuneyta, landshlutasamtaka, sveitarfélaga og ríkisstofnana hefur verið: „Hvernig í ósköpunum er hægt að einfalda þetta kerfi?“ Kerfi sem á að hafa það að markmiði að hámarka almannaheill fyrir það almannafé sem er til úthlutunar. Hvernig má það vera að ráðuneytin vinna svona mikið í sílóum? Getur það verið að innan kerfisins séu ólíkir hópar fólks að vinna að svipuðum málum án þess að vita mikið hver af öðrum? Stendur lóðrétt kerfið frammi fyrir auknum láréttum áskorunum nútímans sem það nær illa að takast á við vegna þess að kúltúr og strúktúr halda því um of í sama farinu?“
Héðinn nefnir að á hverju ári deili ríkið rúmlega 932 milljörðum króna af almannafé til almannaþjónustu og sveitarfélögin deili um 310 milljörðum árlega til 38 þúsund opinberra starfsmanna. Hann nefnir að vegferðin í átt að sameiningu sveitarfélaganna sé rétt hafin, en sé þó nauðsynleg:
„Hver er munurinn á sveitarfélögum og hestum? Jú, það er hægt að sameina sveitarfélög. Í einum landshluta á Íslandi reka tvö sveitarfélög saman grunnskóla þar sem börnin úr öðru þeirra borga fyrir matinn í hádeginu en hin ekki. Af hverju? Af því annað sveitarfélagið er svo stöndugt að það niðurgreiðir máltíðir fyrir börnin „sín“. En eru þetta ekki allt „okkar“ börn?“
Héðinn nefnir einnig aðeEin af grunnhugmyndafræðilegum stoðum fyrir lögum um opinber fjármál sem tóku gildi 2015 hafi verið að tengja saman stefnuþætti og fjármagn til árangurs:
„Sú vegferð hins opinbera er rétt hafin, en klárt er að með færri skipulagsheildum yrði hún auðveldari.“
Héðinn segir að frá fornu fari hafi landsmenn tengt sjálfsmynd sína við landsvæði og þaðan sé hinn alþekkti hrepparígur spottinn, sem hafi jafnvel leitt til blóðugra slagsmála. Hann kallar hinsvegar eftir samstöðu um einföldun á kerfinu, með öðrum orðum, sameiningu sveitarfélaga, en hann sér fyrir sér 8-16 sveitafélög á öllu landinu:
„Framtíðarsýnin gæti verið á þessa leið: Níu ráðuneyti í fjölskipuðu stjórnvaldi á fyrsta stjórnsýslustiginu. Á seinna stiginu yrðu átta til sextán sterk sveitarfélög sem tækju við málaflokkum á borð við málefni aldraðra, heilsugæslu, framhaldsskóla og hjúkrunarheimili frá ríkinu. Slík einföldun og tilfærsla verkefna þýddi ekki einungis að ofangreindum markmiðum yrði náð heldur byði hún einnig upp á meiriháttar hagræðingartækifæri í stofnanakerfi ríkisins. Stofnunum yrði breytt, þeim fækkað og þær styrktar. Framtíðarsýnin þýddi líka það að „við“ Íslendingar fengjum tækifæri til að skilgreina sjálfsmynd okkar út frá stærri landsvæðum, þó án þess að tapa rótunum.“
Héðinn segir að á haustmánuðum muni ríkið „eggja“ sveitarfélög til sameiningar með fjármagni og setja síðan lög um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum:
„Markmiðið er að ná fram fækkun sveitarfélaga og styrkingu sveitarstjórnarstigsins. En tækifærið er stærra en áfangastökk yfir skurð því í slíkri styrkingu og fækkun felast tækifæri fyrir allt kerfið. E.t.v. eru það draumórar „óþekk(t)s embættismanns“ að slík umbreyting geti átt sér stað en framtíðarsýnin stendur og vonin um að kerfið, „við“, geti þjónustað betur í stærri, láréttari og styrkari einingum. Til þess þarf djörfung þeirra er standa við stýrið, djörfung sem oftast sést bara á fyrsta ári hverrar ríkisstjórnar, eftir það ræður kúltúr og strúktúr kerfisins um of.“