fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Eyjan

Bára glímir við fötlun og er brjáluð: „Af hverju er ekki bara stórt fokking skilti framan á Vesturbæjarlaug?“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 24. júlí 2019 12:29

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bára Halldórsdóttir, sem kom upp um Klaustursþingmennina í fyrra, er óánægð með aðgengi fyrir fatlaða í sundlaug Vesturbæjar, en Bára er með sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdóminn Behcet’s, sem gerir henni erfitt um vik í Vesturbæjarlauginni, enda mikið um stiga og þrep.

Forstöðumaður Vesturbæjarlaugar viðurkennir að aðgengi sé ábótavant og vísar á Reykjavíkurborg en Vesturbæjarlaugin hefur undirgengist tugmilljóna króna framkvæmdir á liðnum árum, þar sem bætt var við heitum potti meðal annars, en lítið gert í aðgengismálum fyrir fatlaða.

Engar merkingar

Bára birtir myndband á Youtube þar sem hún segir sögu sína af heimsókn í Vesturbæjarlaugina, en þar var henni tjáð að enginn sérklefi væri fyrir fatlaða, en hún átti einnig erfitt með að finna sérinngang fyrir fatlaða:

„Af hverju er ekki bara stórt fokking skilti framan á Vesturbæjarlaug þar sem stendur „ekki aðgengi fyrir fatlaða“ þannig að það sé ekki bara eitthvað svona sem að allir fatlaðir þurfa að komast að,“

spyr Bára í myndbandinu. Var henni tjáð við komu sína að hún gæti fengið að nota saunuklefann, sem Báru leist ekki vel á:

„Ég þekki fullt af fötluðu fólki, sá klefi er ekkert sérstaklega aðgengilegur, því hann er ekki með neinu privacy, ef þú þarft það. Það eru alveg nokkrir sem ég þekki sem eru með fatlaða líkama, sem þeir vilja ekkert að allir séu að glápa á.“

Boltinn hjá Reykjavíkurborg

Guðrún Arna Gylfadóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar frá 2005-2011 og aftur frá 2017, segir það rétt að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki nógu gott í Vesturbæjarlauginni. Hinsvegar séu tilbúnar teikningar sem taki á þessu vandamáli, en þær bíði samþykkis Aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, í málefnum fatlaðs fólks:

„Reykjavíkurborg tók sig til fyrir nokkrum árum til að bæta aðgengi fatlaðra í sundlaugum. Það stóð til einnig til að bæta aðstæður í Vesturbæjarlaug, en einhverja hluta vegna slær nefndin þessu á frest. Ég tók við fyrir um einu og hálfu ári síðan og hef verið að fylgja þessu eftir, það voru gerðar teikningar um úrbætur og klefi fyrir fatlaða hannaður, en síðan hef ég verið að bíða eftir svörum frá nefndinni, um að gefa grænt ljós fyrir framkvæmdinni, þar sem þetta er kostnaðarsamt,“

segir Guðrún og nefnir að erfitt sé að koma slíkum framkvæmdum við í svo gamalli byggingu. Hún segir hinsvegar engar líkur á að húsið verði merkt með þeim hætti sem Bára vísar til:

 „Það mun ekki koma til, frekar en í öðrum byggingum hjá Reykjavíkurborg, það er nokkuð ljóst. Við erum með upplýsingar um aðgengi á heimasíðu og þetta á ekki að koma mikið á óvart, en vonandi verður bætt úr þessum aðgengismálum fljótlega, það er löngu kominn tími á það,“

segir Guðrún og bendir á að öll fjármögnun umfram hefðbundinn rekstrarkostnað laugarinnar sé á herðum Reykjavíkurborgar.

Ekki fundað í 8 mánuði

Egill Þór Jónsson er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Aðgengis- og samráðsnefndinni hjá Reykjavíkurborg. Hann gagnrýnir meirihlutann fyrir forgangsröðun sína:

„Það eru margar sundlaugar sem hafa setið á hakanum, skólar og frístundarmiðstöðvar til dæmis, ástandið þar er til háborinnar skammar. En það kemur ekkert á óvart, forgangsröðunin hjá þessum meirihluta hefur ekki verið upp á marga fiska þegar kemur að grunnþjónustu og öðru,“

segir Egill, en störf nefndarinnar hafa legið niðri á langan tíma:

„Nefndin hefur legið niðri núna í 7-8 mánuði, það var verið að breyta verkferlum og stokka upp í henni, meðal annars breyta nafninu á nefndinni,“

segir Egill, en hún hét áður Ferlinefnd fatlaðs fólks í Reykjavík.

Ósætti kom upp í nefndinni varðandi forgangsröðun í aðgerðaráætlun, en Egill sagði að fundað yrði um málið í ágúst og þá ætti að koma í ljós nánari tímasetningar varðandi framkvæmdir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bjarni lukkulegur með gleðitíðindin og spáir því að vextir lækki frekar í nóvember – „Planið okkar hefur gengið upp“

Bjarni lukkulegur með gleðitíðindin og spáir því að vextir lækki frekar í nóvember – „Planið okkar hefur gengið upp“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón segist ekki vera rasisti – „Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða“

Jón segist ekki vera rasisti – „Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða“