Það eru ekki bara láglaunastörf sem munu hverfa fyrst af sjónarsviðinu með tilkomu nýrrar tækni, líkt og afgreiðslustörf, samkvæmt Friðriki Boða Ólafssyni, sem situr í framtíðarnefnd VR, hvers megin hlutverk er að gæta þess að fjórða iðnbyltingin muni ekki einungis verða atvinnurekendum til hagsbóta.
Sjálfsafgreiðsluvélar eru nú staðreynd í mörgum verslunum hér á landi og afgreiðslustörf á hröðu undanhaldi, en Friðrik segir að launahærri störf séu einnig í hættu, ef fram fer sem horfir:
„Eftir því sem tækninni fleytir fram, á síauknum hraða, verður erfiðara að finna jafnvægi á vinnumarkaði. Fjöldi starfa mun glatast og önnur skapast í staðinn. Það þarf að greina hvaða störf þetta eru og aðstoða fólk við að laga sig að því. Það sem kemur kannski á óvart er að þessi störf eru alls ekki alltaf láglaunastörf. Þetta á við um til dæmis fólk sem starfar í lögfræðigeiranum og lækna. Stór hluti þeirra vinnu mun verða sjálfvæddur í framtíðinni,“
segir Friðrik við Fréttablaðið í dag.
Friðrik segir að með þessari þróun sé hætt við að fleiri störf glatist en skapist og svörtustu spár geri ráð fyrir að 28 prósent vinnumarkaðar hér á landi verði sjálfvæddur á næstu 15 árum og að önnur 60% vinnumarkaðarins sé í nokkurri hættu, en atvinnuleysi mældist 3.4 prósent í júní mánuði.
„Hér má ekki myndast samfélag þar sem yfirstéttin þarf ekki á starfsfólki að halda og aðrir verði bæði atvinnulausir og valdalausir. Ég sé ekki hvernig hægt er að hafa samfélagslegan stöðugleika með svo hátt atvinnuleysi.“