fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Skutlþjónustur auka bílaumferð um allt að 160 prósent, þvert á stefnu Reykjavíkurborgar: „Ætla ekki að hafa áhyggjur af því fyrirfram“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 23. júlí 2019 14:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Viðreisnar, segir engan ágreining innan borgarstjórnar Reykjavíkur um þá stefnu að afnema beri fjöldatakmörkunum á leigubíla, þó svo að Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og  formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, hafi sagt við Fréttablaðið í morgun að stíga bæri varlega til jarðar hvað það varðar, þar sem rannsóknir sýndu að farveitur á borð við Uber og Lyft væru að auka bílaumferð, en ekki að minnka hana.

Það er stefna Reykjavíkurborgar að minnka umferð, til að mæta markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkun útblásturs. Hart hefur verið tekist á um sum þau ráð sem borgin hefur gripið til vegna þessa, til dæmis með því að loka fyrir umferð um verslunargötur í miðborginni.

Borgarstjórn hefur hinsvegar lýst yfir að hún sé hlynnt því að aflétta fjöldatakmörkunum á leigubílum, líkt og gert er ráð fyrir í drögum að nýju frumvarpi þess efnis á Alþingi, meðal annars til að minnka bílaumferð. Því virðist um mótsögn að ræða í stefnumálum Reykjavíkurborgar hvað þetta varðar og virðist komið hik á Sigurborgu við að fylgja eftir stefnu borgarinnar um að afnema fjöldatakmarkanirnar á leigubílum.

Pawel sagði við Eyjuna, að enginn ágreiningur væri til staðar um málið:

„Ég hef nú ekki heyrt í Sigurborgu með þetta, en ég ímynda mér ekki nei. Ef það eru einhver mál sem hafa gengið vel að leysa innan borgarstjórnar, þá eru það grænu málin og umferðarmálin. Ef það á að reka fleyg á milli mín og Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur þá eru flest önnur mál betur til þess fallin en umhverfis og samgöngumál.“

Auka umferð um 160 prósent

Skutlþjónustur  á borð við Uber og Lyft auka borgarumferð um allt að 160% samkvæmt rannsókn Bruce Schaller, sérfræðings í umferðarmálum, frá því í fyrra. Farþegum sem nýttu sér slíka þjónustu fjölgaði um 37 prósent milli ársins 2016 og 2017, eða úr 1.9 milljarði í 2.61 milljarð notenda. Það er þvert á fullyrðingar skutlþjónustufyrirtækjanna sjálfra, sem segja þjónustur sínar draga úr bílaumferð.

Schaller segir að slík fyrirtæki hafi aukið akstur bílaumferðar í borgum um rúmlega níu milljónir kílómetra í þéttbýlustu borgum Bandaríkjanna, samhliða því sem bílakaupum fjölgaði meðal íbúa, umfram fjölgun íbúa. Hann segir að fylgifiskur slíkrar þjónustu sé að bílarnir keyri mikið til tómir, það er að segja án farþega. Borgirnar sem um ræðir eru Boston, Chicago, Los Angeles, Miami, New York, Philadelphia, San Francisco, Seattle og Washington.

Í rannsókn hans kemur einnig fram að slíkar skutlþjónustur komi ekki í staðinn fyrir notkun fólks á almenningssamgöngum, þar sem 60 prósent þeirra sem notuðu Uber og Lyft, hefðu nýtt sér almenningssamgöngur ef Uber og Lyft væri ekki fyrir hendi. Hin 40 prósentin hefðu notað eigin bíl eða hringt á hefðbundinn leigubíl. Einnig kemur fram að notendur skutlþjónusta sem eiga bíl, noti þjónustuna helst þegar erfitt er að fá stæði fyrir eigin bíl, eða þeir hyggist neyta áfengis. Schaller segir að sjálfkeyrandi bílar muni ekki leysa neinn vanda, þeir muni aðeins auka umferðina í ofanálag.

Engar fyrirfram áhyggjur

Pawel, sem staddur var erlendis, hafði ekki kynnt sér rannsókn Schaller og vildi því ekki tjá sig efnislega um hana, en fannst það ótrúlegt að umferðin hefði aukist þetta mikið. Hann sagði að vissulega væri það ekki jákvæð niðurstaða:

„Ef niðurstaðan yrði einungis sú að umferðin myndi aukast, og ekkert annað myndi gerast þá yrði það ekki jákvæð niðurstaða í sjálfu sér. Ef það kemur á daginn að umferð rjúki upp úr öllu valdi, þá verðum við að horfa á einhverjar leiðir til þess að verðleggja betur notkun á umferðarmannvirkjum. En ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því fyrirfram, svo það sé sagt.“

Sigurborg virðist meðvituð um að farveitur á borð við Uber og Lyft auki bílaumferð í borgum. Hinsvegar er haft er eftir henni að það sé mjög gott að fá betri nýtingu á hverju farartæki fyrir sig með tilkomu farveita, en það er þvert á niðurstöðu Schaller, sem segir að aukin umferð af völdum farveita sé einmitt vegna þess að bílarnir keyri mikið um tómir og nýtingin því ekki nægilega mikil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra