Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, mun taka sæti í stjórn Kerecis, ísfirska nýsköpunarfyrirtækisins sem framleiðir ígræðsluefni fyrir brunasár úr fiskroði. Hluthafafundur Kerecis verður fimmtudaginn 1. ágúst þar sem Ólafur mun taka sæti Hilmars Braga Janussonar, forstjóra líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, staðfesti þetta við Eyjuna en Fréttablaðið greindi fyrst frá. Segir Guðmundur að mikill fengur sé í Ólafi:
„Ólafur er gríðarlega vel tengdur, ekki síst í Asíu og á Indlandi og ég geri ráð fyrir að reynsla hans muni nýtast vel í stjórninni. Ástæðan fyrir tilnefningunni er að hann hefur verið að vinna með Laurene Jobs og Emmerson Collective um sjálfbæra hagnýtingu á sjávarauðlindum, sem er einn stærsti hluthafinn í Kerecis, og svo vill hann tengjast sínum gamla heimabæ,“
Kerecis jók nýlega hlutafé sitt um tvo milljarða króna og meðal nýrra fjárfesta var Laurene Powell, ekkja Steve Jobs, sem Forbes fjármálatímaritið setti í 40. sæti yfir ríkustu milljarðamæringa heims árið 2018.
Meðal fjárfesta var einnig Omega 3, félag Björgólfs Thors Björgolfssonar, Alvogen og sjóðir á vegum GAMMA.
Ólafur Ragnar hefur fest kaup á sínu gamla æskuheimili á Ísafirði, fyrir 27.9 milljónir króna, en hann fékk íbúðina að Túngötu 3, nefnt Grímshús eftir föður Ólafs, afhenta um helgina, en kaupin gengu í gegn 13 júní, samkvæmt kaupsamningi sem Eyjan hefur undir höndum.
Kerecis var stofnað árið 2011 á Ísafirði og notar þorskroð við framleiðslu afurða sinna, til meðhöndlunar brunasára og annarra þrálátra sára. Fiskroðið inniheldur fjölómettaðar fitusýrur sem hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt, en framleiðslan fer fram á Ísafirði.
Hjá Kerecis starfa um 100 manns, þar af eru 60 í Bandaríkjunum, 20 í Reykjavík og 20 á Ísafirði.
Sjá einnig: Ekkja Steve Jobs fjárfestir í fiskroði á Vestfjörðum -Kerecis eykur hlutafé sitt
Sjá einnig: Kaup Ólafs Ragnars á æskuheimili sínu á Ísafirði ekki gengin í gegn