Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur kært úrskurð kjörnefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og komst að því að kæra Vigdísar á framkvæmd borgarstjórnarkosninganna á síðasta ári hafi borist of seint og kærunni því vísað frá.
Málið snýst um aðgerðir Reykjavíkurborgar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í fyrra, þar sem ákveðnum hópum voru send hvatningarorð í sms skilaboðum og bréfleiðis um að nýta kosningarétt sinn. Persónuvernd taldi þetta brjóta gegn persónuverndarlögum og kærði Vigdís kosningarnar í kjölfarið. Kærunni var hinsvegar vísað frá í fyrstu, þar sem hún barst ekki innan við sjö daga frá kosningum.
Í greinargerð með kæru Vigdísar er tekið fram að dómsmálaráðuneytið hafi sent yfirkjörstjórn Reykjavíkur bréf þann 23. maí 208 sem innihélt viðvörunarorð um að reynt gæti á kosningalöggjöfina, vegna ábendinga Persónuverndar sem gerðar voru þann 18. maí. Yfirkjörstjórn fundaði þann 23. maí, en tók bréfið ekki fyrir á fundi sínum. Yfirkjörstjórn fundaði einnig þann 25. maí, en tók bréfið heldur ekki fyrir þá. Kosningadagur var 26. maí og fundaði yfirkjörstjórn 28. maí að nýju, en þá fyrst er bréfið frá dómsmálaráðuneytinu lagt fram, að loknum kosningum.
„Yfirkjörstjórn mátti vera ljóst að erindið innihéldi alvarlegar athugasemdir, vegna framkvæmda kosninganna og ekki er hægt að bera því við að yfirkjörstjórn væri ekki kunnugt um erindi ráðuneytisins því yfirkjörstjórn Reykjavíkur var sent ljósrit af erindinu,“
segir í greinargerðinni með kæru Vigdísar.
Í bréfi dómsmálaráðuneytisins þann 23. maí benti ráðuneytið Reykjavíkurborg á að „ekki yrði séð af gögnum málsins að ungir kjósendur yrðu fræddir um það að þeir yrðu andlag rannsóknar á kosningaþátttöku, hvorki í bréfunum né í smáskilaboðunum.“
Þá lýsti ráðuneytið þeirri afstöðu að í einu bréfanna væri að finna villandi upplýsingar um að það væri borgaraleg skylda að kjósa.
Þetta kemur fram í minnisblaði vegna frumkvæðisrannsóknar Persónuverndar, sem lagt var fram í Borgarráði þann 12. febrúar síðastliðinn.