Airbusvél sem kyrrsett var hér á landi vegna skulda WOW air við Isavia, en er í eigu bandaríska leigufélagsins ALC, flaug af landi brott í morgun í kjölfar dómsúrskurðar. Hefur ALC reynt að fá vélina til sín síðan í mars, en Isavia kyrrsetti hana vegna heildarskuldar WOW við Isavia, sem nam um tveimur milljörðum og tengdist öðrum vélum einnig. Mætti því ætla að Isavia hafi lítið í höndunum til að halda málarekstri sínum áfram, en það er öðru nær.
Isavia hyggst ekki leggja árar í bát, samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia, sem sagði við Eyjuna í morgun að málið yrði áfram rekið fyrir dómstólum:
„Niðurstaða dómarans við Héraðsdóm Reykjaness í máli ALC er með öðrum hætti en aðrir dómar sem fallið hafa um sambærileg mál bæði hérlendis og erlendis og því hefur Isavia skotið málinu til Landsréttar til að fá niðurstöðu fjölskipaðs dómsvalds. Það var einnig niðurstaða dómarans að ekki væri heimild til frestun réttaráhrifanna og því er flugvél ALC farin af landi brott og þar með þær tryggingar sem í henni fólust. Málinu er þó ekki lokið og verður rekið fyrir dómstólum.“
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í fyrradag að ALC bæri að fá vélina aftur, en ALC hafði þegar greitt um 87 milljónir króna vegna skuldar, samkvæmt dómsúrskurði, en þurfti ekki að greiða heildarskuld WOW air við Isavia, enda sú skuld tilkomin vegna annarra véla einnig.
ALC ætlar hinsvegar að halda málinu til streitu og sækjast eftir skaðabótum frá Isavia, þar sem vélin hafi ekki getað aflað félagi sínu tekna meðan á kyrrsetningunni stóð, en samkvæmt Oddi Ástráðssyni, lögmanni ALC, er sú upphæð talin vera mun hærri en skuld WOW við Isavia vegna þotunnar eða nálægt 200 milljónum.
Samkvæmt Guðjóni þarf enn skýringu á því hvernig túlka eigi 136. grein laga um loftferðir, sem tilgreina að heimilt sé að aftra för loftars af flugvelli, þangað til gjöld séu greidd:
[[Samgöngustofu] 1) [og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu] 2) er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. [Rekstraraðili flugvallar skal verða við beiðni Umhverfisstofnunar um að aftra för loftfars uns lögmælt gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, er varða viðkomandi loftfar, eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.]