Herjólfur III, hið nýja 4.3 milljarða króna skip sem nýlega kom til Vestmannaeyja eftir að hafa verið haldið í gíslingu af Skipasmíðastöðinni Crist S.A. í Póllandi, átti að sigla sína fyrstu ferð til Landeyjahafnar í dag. Af því verður ekki.
Frá þessu er greint á heimasíðu Herjólfs í dag, en þar er ekkert gefið upp um ástæður frestunarinnar á fyrstu ferð Herjólfs:
„Undanfarna daga hafa prófanir farið fram á nýju ferjunni. Megin tilgangur siglinganna milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar var að tryggja að hafnarmannvirki uppfylltu allar nauðsynlegar aðstæður til að hefja rekstur á nýju ferjunni. Eftir yfirferð og rýni í alla þætti hefur verið ákveðið að fresta innsetningu nýju ferjunnar í rekstur en vonir voru bundnar við að hefja rekstur á morgun, fimmtudaginn 18. júlí. Af því verður því miður ekki. Munu aðilar gefa sér tíma fram yfir helgi og má vænta frekari upplýsinga í kjölfarið.“
Samkvæmt heimildum Eyjunnar á eftir að fullþjálfa áhöfnina og framkvæma ýmsar lagfæringar á hinu nýja skipi, svo allt sé 100%.
Sjá einnig: Herjólfur á leið heim – Samið um lokauppgjör
Sjá einnig: Kostnaður ríkisins við Landeyjahöfn og Herjólf um 11 milljarðar
Sjá einnig: Sandur heftir för Herjólfs í um 30% tilfella – Dýpkunarframkvæmdir kostað yfir þrjá milljarða