Helgi Hrafn Gunnarson, þingmaður Pírata, hefur fengið yfir sig gusur af skömmum á samfélagsmiðlum í kjölfar birtingu myndbands sem sýnir hann ausa úr skálum reiði sinnar og gremju gagnvart Birgittu Jónsdóttur á félagsfundi Pírata.
Birgitta, sem gerði misheppnaða tilraun til að komast í trúnaðarráð flokksins eftir að hafa sagt sig úr Pírötum í fyrra, bar sig aumlega eftir ræðu Helga og sagði að um mannorðsmorð væri að ræða og hún ætti ekki skilið slíka framkomu, en Helgi Hrafn sagði Birgittu meðal annars ótraustverðuga, grafa undan samherjum sínum og búa til ósætti.
„Mér finnst ég ekki á nokkurn hátt hafa gengið of langt. Ég sé ekki eftir einu einasta orði, tek ekki eitt einasta orð til baka. Ég var fullkomlega hreinskilinn og einlægur og stend við hvert einasta orð og framsetninguna á því,“
segir Helgi við Fréttablaðið og bætti við að ræða hans hafi ekki verið ætluð fjölmiðlum:
„Ég sagði allt á þessum fundi sem ég hafði að segja um atkvæðagreiðsluna og þótt ég hafi haldið þessa ræðu fullkomlega meðvitaður um það að hún gæti ratað í fjölmiðla, og tók það fram í ræðunni, þá var ég samt að beina orðum mínum til flokksmeðlima. Það var ekkert ætlun mín að þessi umræða um Birgittu Jónsdóttur færi í fjölmiðla. Fyrir mér er þetta innanflokksmál.“
Aðspurður hvort það hafi fengið á hann að Birgitta hafi sagst svívirt og sár, sagði Helgi Hrafn að það hafi ekki verið ætlun hans að grafa undan Birgittu í samfélaginu:
„Mér þykir leiðinlegt að hún sé sár, en veistu, það þurfti bara að segja þessa hluti. Ef hún er sár yfir því þá er það bara hluti af því sem þurfti að gerast. Það er allt leiðinlegt við þetta. Ég er líka sár. Mér finnst þetta líka leiðinlegt. Mér hefur aldrei liðið jafn illa yfir að þurfa að halda ræðu í lífinu. Og mér finnst þetta allt saman ömurlegt frá upphafi til enda. En þarna þurfti að segja hluti sem voru ósagðir. Það sem ég gerði, gerði ég á eins hreinskilinn og heiðarlegan máta og mér er unnt og ég met það þannig að það hafi ekki verið mikið val. Valið stóð á milli þess að þegja eða segja þessa hluti. Valið að þegja er ekki lengur í boði.“
Þá segir Helgi einnig að hann beri ekki kala til þess einstaklings sem lak upptökunni, en tók fram að hann hefði aldrei gert slíkt sjálfur.
Sjá einnig: Píratar höfnuðu Birgittu – Yfirgaf fundinn grátandi
Sjá einnig: Ótrúleg upptaka af átakafundi Pírata – Harðar ásakanir á Birgittu – „Hún grefur undan samherjum sínum“
Sjá einnig: Þingflokkur Pírata beitti sér gegn Birgittu sem segist „svívirt“ – Píratar skiptast í tvær ólgandi fylkingar