Davíð Stefánsson, ritstjóri Fréttablaðsins, gagnrýndi Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, harðlega í leiðara blaðsins í dag líkt og Eyjan greindi frá í morgun. Sagði Davíð að Ragnar Þór væri hættulegur forsendum velferðarkerfisins og hefði gefið upp „tylliástæður“ fyrir upphlaupinu þegar VR afturkallaði umboð stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóði verslunarmanna á dögunum.
Sjá nánar: Davíð segir Ragnar Þór hættulegan og upphlaup hans vera „tylliástæðu“
Ragnar segir Davíð sinna sérhagsmunagæslu með leiðaraskrifum sínum,
„Þegar þú tekur slaginn við valdamikil öfl í íslensku samfélagi þarftu að búa þig undir að hart sé að þér sótt af gæslumönnum sérhagsmunaafla sem makað hafa krókinn á því valdaójafnvægi sem þrífst í okkar samfélagi. Áróðurinn er misharður en mælikvarði á hversu miklir hagsmunir eru í húfi hverju sinni. Málefnaleg rök virðast engu máli skipta heldur það eitt að lobbíistarnir tali í sömu áttina í þeirri von um að fólkið trúi lyginni sé hún sögð nægilega oft úr sem flestum hornum sérhagsmuna. Ég hef sjaldan orðið vitni að eins hörðum viðbrögðum og persónulegum árásum við nokkru sem ég hef tekið þátt í að gera. Sem þýðir að við erum á hárréttri leið,“
segir Ragnar Þór og nefnir að kjarni málsins sé að gæta raunverulegra hagsmuna félagsmanna sinna:
„Ég vara við skyndilegum áhyggjum þeirra sem vilja einir stjórna því hvernig og hverjir fá að spila með gríðarlegar eignir okkar allra innan lífeyrissjóðakerfisins.
Þar felast hinar raunverulegu hættur og þar eru úlfarnir í sauðagærunum.“
Ragnar segir ekkert í lögum lífeyrissjóða sem banni að skipta út stjórnarmönnum, líkt og Davíð ýjaði að í leiðara sínum, og mælir fyrir því að stjórnir lífeyrissjóða verði kosnar beint af sjóðsfélögum:
„Líklega er eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint og aftengjum þannig atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna, sem er í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseigandi. Til þess þarf einfalda lagabreytingu. Okkur er jú treystandi til að kjósa um nánast allt annað.“
Að lokum sendir Ragnar Þór ritstjóra Fréttablaðsins hamingjuóskir:
„Að lokum vil ég óska nýjum ritstjóra Fréttablaðsins til hamingju með nýja starfið og fyrir að stimpla sig rækilega í hóp þeirra lobbíista sem allir sjá í gegnum.“