Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag, sem einnig er birt á samfélagsmiðlum Miðflokksins. Þar setur Sigmundur sig í spámannsstellingar og reifar hvernig viðbrögðin yrðu í samtímanum ef þorskastríð hæfust nú á dögum. Breytir hann nöfnum stofnanna, stjórnmálaflokka og nefnir engin nöfn á persónum. Hinsvegar skrifar hann um rithöfund með athyglisþörf og pólitískan metnað, en þess má geta að rithöfundarnir Guðmundur Andri Thorsson og Einar Kárason eru báðir kollegar Sigmundar á Alþingi, fyrir Samfylkinguna. (Einar er varaþingmaður).
Þá nefnir Sigmundur „tístara úr vesturbænum“, og spjallþátt á RÚV þar sem vinir drekka saman kaffi og veltast um af hlátri, en sú lýsing á ágætlega við um Vikuna með Gísla Marteini, en frægt er viðtalið sem Gísli Marteinn tók við Sigmund, þáverandi forsætisráðherra árið 2014 og ljóst að einhver kergja er enn til staðar vegna þess.
Sjá nánar: Viðtal Gísla við Sigmund Davíð
Minnist Sigmundur einnig á „Samhreyfinguna“ sem telur þörf á að sækja um aðild að ESB til að ná raunhæfri lausn í þorskastríðinu, en þar er augljóslega um Samfylkinguna að ræða.
Um gagnrýnendur þjóðernispopúlisma segir Sigmundur:
„Þeir eru þó ófáir sem telja að krafa Íslendinga um yfirráð yfir fiskveiðum í allt að 200 mílur frá landinu feli í sér þjóðernislega frekju og sé til marks um einangrunarhyggju og poppúlisma. „Af hverju eigum við einir rétt á hafinu í kringum landið“ spyrja þeir. „Er ekki náttúra heimsins sameign okkar allra?“ Því er svo bætt við að aldalöng hefð sé fyrir veiðum Breta og annarra þjóða við Ísland. Landhelgistalið sé bara dæmi um úreltar hugmyndir um að þjóðir einangri sig frá öðrum þótt sú hafi aldrei verið raunin.“
Þá nefnir Sigmundur einnig hvernig nútímavandamál muni hafa áhrif á umræðuna:
„…ekki líður á löngu áður en fram kemur að ráðuneytið hafi bent á að troll bresku togaranna séu gerð úr plastefnum. Yrði klippt á togvírana myndi það auka á plastmengun í hafinu. Auk þess væri hætta á að fiskar og jafnvel hvalir myndu flækjast í hinum lausu netum. Einnig er talsvert fjallað um að slík aðgerð feli í raun í sér brottkast og um leið matarsóun. Betra væri að trollin og fiskurinn skiluðu sér til hafnar í Hull eða Grimsby.“
„Þá nefnir Sigmundur að ef blásið yrði til þorskastríðs í dag kæmi væntanlega upp krafa um að Alþingi setti fyrirvara, og vísar þar til orkupakkans:
Aðrir benda á að lausnin felist í tillögu um að Alþingi samþykki fyrirvara þess efnis að Bretar skuli ekki auka veiðar sínar innan 50 mílna frá því sem nú er nema að undangenginni umfjöllun Alþingis. Þeir sem efast um þessa leið eru spurðir hvort þeir treysti ekki Alþingi./
Ráðherrar ákveða að fara fyrirvaraleiðina og sannfæra sitt lið um að þannig sé málið leyst. Með þeim hætti fáist fagleg niðurstaða og óþarfi sé að hafa áhyggjur af illa upplýstum flokksstofnunum og kjósendum. Nútímaleg nálgun hefur leyst málin án þess að menn láti „hugmyndir sem einu sinni þóttu góðar“ trufla sig.“
Greinina má sjá hér að neðan:
Stjórnmálin og samfélagið eru að breytast. Ekki er víst að breytingarnar séu allar til góðs. Þótt sumir telji hin nýju stjórnmál tímanna tákn og álykti að nútíminn sé alltaf betri en allt annað getur verið gagnlegt að setja hlutina í sögulegt samhengi. Það má t.d. velta fyrir sér hvernig mál hefðu þróast ef mikilsverðir atburðir fortíðar hefðu átt sér stað nú á dögum.
Hér á eftir birtist tilgáta um hvernig þorskastríðin gætu hafa þróast hefðu þau átt sér stað í samtímanum. Nöfnum stofnana og annarra samtaka hefur verið breytt til nútímalegra horfs (að Landhelgisgæslunni undanskilinni). Atburðarásin hefur auk þess verið aðlöguð að tíðarandanum.
Breskir togarar gerast sífellt ásælnari við veiðar undan ströndum Íslands eftir að fiskveiðiskip sunnar úr Evrópu juku veiðar við Bretland. Varðskip Íslendinga sigla um landhelgina og tilkynna breskum skipstjórum að þeir séu að veiða í heimildarleysi. Skipverjar á breskum togurum taka þó lítið mark á aðvörunum enda varðskipin óvopnuð. Sú hefur verið raunin um nokkurt skeið. Danir buðust til að uppfæra vopn Landhelgisgæslunnar með því að gefa henni antíkbyssur (árgerð 1898) en þeim var skilað eftir átak í fréttum og á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni „Gamlar byssur eru líka byssur“.
Ráðherrar og flokkar þeirra lýsa því yfir með afdráttarlausum hætti að slík ásælni verði ekki liðin. Landhelgisgæslan leitast við að bregðast við veiðum Bretanna og kynnir til sögunnar nýtt heimatilbúið vopn. Fyrst þarf þó samþykki ráðuneytisins fyrir beitingu þess. Grípum niður í ímyndað svarbréf ráðuneytisins við þeirri málaleitan:
„Réttarfars- og mannúðarráðuneytið hefur móttekið erindi Landhelgisgæslunnar, dagsett hinn 7. síðasta mánaðar, þar sem þér æskið þess að veitt verði heimild fyrir notkun tækjabúnaðar sem í erindinu er nefndur „togvíraklippur“ og á öðrum stöðum í sama erindi „klippurnar“.
Athugun ráðuneytisins hefur leitt í ljós að hvergi er að finna heimildir fyrir notkun slíks búnaðar né nokkur dæmi þess að búnaður sem þessi hafi verið skráður sem tæki til notkunar á verksviði stofnunar yðar. Þá er ekki að sjá að nokkur dæmi séu skráð um notkun slíks búnaðar hér á landi eða erlendis.
Ekki er annað að skilja á erindi yðar en að tilraunaprófanir þær sem vísað er til séu prófanir sem fram hafi farið innan Landhelgisgæslunnar. Ljóst er að við leyfisveitingu er ekki hægt að styðjast við tilraunir sem gerðar eru af sama aðila og hyggst nýta búnaðinn. Prófanir skulu framkvæmdar af óháðum fagaðilum með vottun á því sviði sem um ræðir og með heimild til að gefa út tækar rannsóknarniðurstöður.
Þá er athygli stofnunarinnar vakin á því að búnaður eins og sá sem lýst er í erindi yðar þarf að hljóta CE-vottun áður en honum er beitt. Telji stofnunin brýnt að hljóta slíka vottun getur viðeigandi ráðuneyti farið fram á flýtimeðferð og má þá vænta vottunar innan þriggja til fimm ára, verði hún veitt.
Athygli er þó vakin á því að slík vottun tryggir ekki heimild fyrir notkun búnaðarins í þeim tilgangi sem lýst er í erindi yðar. Við það mat þarf að líta til ýmissa áhrifaþátta…“
Segjum þetta gott af svari ráðuneytisins en hvað með áhrifin sem vísað var til?
Jú, ekki líður á löngu áður en fram kemur að ráðuneytið hafi bent á að troll bresku togaranna séu gerð úr plastefnum. Yrði klippt á togvírana myndi það auka á plastmengun í hafinu. Auk þess væri hætta á að fiskar og jafnvel hvalir myndu flækjast í hinum lausu netum. Einnig er talsvert fjallað um að slík aðgerð feli í raun í sér brottkast og um leið matarsóun. Betra væri að trollin og fiskurinn skiluðu sér til hafnar í Hull eða Grimsby.
Fljótlega birtast fréttir með mynd af klippunum þar sem fram kemur að fyrrverandi forstjóri Landhelgisgæslunnar hafi átt hugmyndina að búnaðinum.
Virkir á samfélagsmiðlum taka við sér. Rithöfundur með athyglisþörf og pólitískan metnað deilir mynd af klippunum á facebook og skrifar við: „Þetta er gamla akkerið af trillunni hans afa. Hann henti því af því það var of lítið.“ Tístarar láta ekki sitt eftir liggja. Á þeim vettvangi keppast menn við að vera sniðugri en aðrir eins og fjallað er um í frétt Vísis undir fyrirsögninni „Twitter logar – Sjáið lausnir tístara fyrir Gæsluna“.
Skemmtilegastur þykir tístari úr Vesturbæ Reykjavíkur sem sýnir mynd af sundblöðkum, flothring í formi guls andarunga og bleikum barnaskærum með athugasemdinni: „Nýjasta hugmynd forstj. Landhg. að lausn landh.deilunnar #islenskisjoherinn“.
Öllu þessu eru gerð góð skil í spjallþætti á RÚV þar sem vinir drekka saman kaffi og veltast um af hlátri yfir umræðu um landa sína sem telji að þeir séu mikils megnugir og ætli í slag við alþjóðasamfélagið með heimatilbúinn „mini-sjóplóg“ að vopni.
Samhreyfingin og systurflokkar hennar nýta hvert tækifæri til að útskýra að eina raunhæfa lausnin á málinu sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu enda fáum við þá „sæti við borðið“ og ESB muni beita sér fyrir því að fiskveiðum verði stjórnað til að tryggja sameiginlega hagsmuni. Bara það að sækja um muni strax styrkja stöðu okkar. Með því sýnum við nefnilega vilja til samstarfs og Evrópuþjóðir muni þá strax leitast við að stuðla að niðurstöðu sem henti Íslandi og öllum ríkjum sambandsins.
Sumir halda því fram að veiðar Breta við Ísland skipti í raun engu máli enda sé nóg af fiskum í sjónum. Aðrir benda á að lausnin felist í tillögu um að Alþingi samþykki fyrirvara þess efnis að Bretar skuli ekki auka veiðar sínar innan 50 mílna frá því sem nú er nema að undangenginni umfjöllun Alþingis. Þeir sem efast um þessa leið eru spurðir hvort þeir treysti ekki Alþingi.
Þeir eru þó ófáir sem telja að krafa Íslendinga um yfirráð yfir fiskveiðum í allt að 200 mílur frá landinu feli í sér þjóðernislega frekju og sé til marks um einangrunarhyggju og poppúlisma. „Af hverju eigum við einir rétt á hafinu í kringum landið“ spyrja þeir. „Er ekki náttúra heimsins sameign okkar allra?“ Því er svo bætt við að aldalöng hefð sé fyrir veiðum Breta og annarra þjóða við Ísland. Landhelgistalið sé bara dæmi um úreltar hugmyndir um að þjóðir einangri sig frá öðrum þótt sú hafi aldrei verið raunin.
Sérstaklega er varað við því að leita liðsinnis Bandaríkjanna (þar er Trump) eða Rússlands (þar er Pútín). Málið þurfi að leysa í samvinnu við nánustu samstarfsþjóðir okkar og treysta á að þær beiti sér fyrir ásættanlegri niðurstöðu.
Lítil viðbrögð berast frá Norðurlöndum en þá er bent á að innan Evrópuráðsins starfi nefnd sem henti mjög vel til að fjalla um svona mál. Íslendingar geti sent erindi til nefndarinnar og leitað eftir umræðu á þeim vettvangi. Mjög er þó varað við því að beita hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna enda gætu önnur lönd tekið því illa og við þannig sett þátttöku okkar í sáttmálanum í uppnám.
Ýmsir verða svo til að benda á að lausnin felist í alþjóðlegu samstarfi um umhverfisvernd. Best sé að þjóðir heims, undir forystu Evrópusamstarfsins, taki sig saman um að draga úr fiskveiðum til að vernda lífríki sjávar og setja hömlur á siglingar fiskveiðiskipa. Þannig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig væru einnig settar hömlur á að skip sigldu of langt frá landi. Fyrir vikið þyrfti Landhelgisgæslan ekki að sigla um allar trissur og með því myndi kolefnisspor stofnunarinnar minnka verulega.
Ráðherrar ákveða að fara fyrirvaraleiðina og sannfæra sitt lið um að þannig sé málið leyst. Með þeim hætti fáist fagleg niðurstaða og óþarfi sé að hafa áhyggjur af illa upplýstum flokksstofnunum og kjósendum. Nútímaleg nálgun hefur leyst málin án þess að menn láti „hugmyndir sem einu sinni þóttu góðar“ trufla sig.