Ferðamenn eru hvattir til þess að draga úr plastnotkun og drekka kranavatn á ferð sinni um landið í nýrri markaðsherferð undir merkjum Inspired by Iceland í samstarfi við Umhverfisstofnun og hagaðila.
Í herferðinni er lögð áhersla á að kynna íslenska vatnið sem lúxusvöru undir heitinu „Kranavatn” sem finna má ókeypis í næsta krana um allt land.
Markmiðið er að draga úr óþarfa plastnotkun ferðamanna og vekja um leið athygli á gæðum íslenska vatnsins sem er eitt hreinasta og bragðbesta kranavatn í heimi. Með verkefninu er einnig ætlunin að styðja við umhverfisvernd og aðgerðir til að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
65% nota meira plast á ferðalögum – áskorun um breytta hegðun
Í könnun sem framkvæmd var meðal 16.000 manns í Norður-Ameríku og Evrópu sögðust 65% aðspurðra nota meira af plastflöskum á ferðalögum heldur en heima hjá sér. Aðspurð um meginástæður þess nefndu 70% órökstuddan ótta við kranavatn og 19% nefndu þægindi. Í Kranavatnsherferðinni er skorað á ferðamenn að breyta þessu mynstri og drekka vatn beint af krana þegar þeir ferðast um Ísland og fylla á endurnýjanleg ílát í stað þess að kaupa vatn á plastflöskum.
Íslenska vatnið er lúxusvara
Fáar þjóðir hafa jafn gott aðgengi að vatni eins og Íslendingar. Íslenska vatnið er einnig sérstakt að því leyti að 98% af því er ómeðhöndlað grunnvatn og mælingar sýna að óæskileg efni eru langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Neysluvatn á Íslandi er alls staðar talið hreint og öruggt til neyslu og erlendir ferðamenn átta sig ekki allir á þeirri staðreynd.
„Það er ánægjulegt að geta boðið erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands upp á þá lúxusvöru sem íslenska vatnið okkar er og vekja athygli á því hve aðgengilegt það er. Við tökum á móti rúmlega tveimur milljónum ferðamanna til Íslands á ári og margir þekkja ekki gæði kranavatnsins. Það er til mikils að vinna að efla þekkingu á því og stuðla þannig að minni plastneyslu ferðamanna hér á landi,“
segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tekur í sama streng:
„Í þessu verkefni felst mikilvæg áskorun til ferðamanna um að draga úr plastneyslu og nota heldur margnota flöskur sem fylltar eru með kranavatni. Um þessar mundir eru stigin fjölmörg mikilvæg skref við að minnka plastneyslu í heiminum. Kranavatnsverkefnið er eitt af þessum skrefum sem mun vonandi stuðla að ábyrgari hegðun ferðamanna á Íslandi og víðar um heiminn.“
Verkefnið er unnið undir merkjum Inspired by Iceland og sér Íslandsstofa um framkvæmd. Verkefnið er í samstarfi við Umhverfisstofnun og er styrkt að hluta af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Inspired by Iceland er markaðsverkefni í samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja og eru helstu aðilar Icelandair, Icelandic og Samtök ferðaþjónustunnar sem fulltrúar fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu.