„Einhverjir hafa kvartað yfir því að Morgunblaðið hafi talið sig eiga samleið með 58 prósentum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í orkupakkamálum. Blaðið bindur sig ekki við flokka en er þó ánægt með þennan fjölda samferðamanna úr þessum flokki.“
Svo ritar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í leiðara blaðsins í dag, hvar hann fjallar um skoðanakannanir og þriðja orkupakkann. Hann nefnir að ofan könnun MMR þar 48% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins mæltist andvígt innleiðingu þriðja orkupakkans.(58% þeirra sem tóku afstöðu)
Davíð hefur að undanförnu talað gegn sínum gamla flokki hvar hann gegndi formennsku og í raun afneitað honum vegna ýmissa mála, þó aðallega vegna þriðja orkupakkans. Sögulega séð hefur Morgunblaðið ávallt verið tengt Sjálfstæðisflokknum og sat blaðamaður þess þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins áratugum saman, þó svo langt sé síðan að því var hætt.
Davíð virðist horfa meira til þess sem Miðflokkurinn hefur fram að færa, og virðist oftast sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, heldur en Bjarna Benediktssyni, en það nær alveg aftur til Icesave málsins skömmu eftir hrun.
„Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Svo skrifaði Davíð um Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurbréfi fyrr í þessum mánuði og virðist því ekki telja Bjarna fylgja stefnu flokksins.
„Hvernig í ósköpunum getur einn þingflokkur komið sér þannig út úr húsi hjá sínum stuðningsmönnum? Sérhver stjórnmálaflokkur sem uppgötvaði að 20-30% stuðningsmanna hans væri andvígur máli sem breyst hefði í stórmál sem hann sæti uppi með yrði mjög hugsandi. En hvað þá þegar 58% stuðningsmanna flokks botna ekkert í því hvert hann er að fara. Þá er eitthvað stórkostlega mikið að,“
segir Davíð í leiðaranum og bætir við:
„Það eina óskiljanlega er að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er úti að aka með öðrum en stuðningsmönnum sínum og jafnvel lakar staddur í þeim efnum en þegar flokknum var óvænt ýtt skýringarlaust út á svipað forað í Icesavemálinu forðum.“
Davíð nefnir einnig að afstaða stuðningsfólks Pírata sé að breytast hratt, en þingmenn Pírata hafa sett ýmis spurningamerki við þriðja orkupakkann. Davíð vitnar í könnun sem sýnir að andstaða meðal stuðningsmanna Pírata hafi aukist verulega og mælist nú 34% og ekki síst meðal yngra fólks.
Um „smáflokkana“ segir Davíð:
„Könnunin sýnir einnig að þetta skrítna mál þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til atlögu við yfirgnæfandi meirihluta stuðningsmanna sinna, hefur eingöngu góðan stuðning hjá kjósendum smáflokkanna Viðreisnar og Samfylkingar, eða um 74% fylgi hjá hvorum. Ráða þeir virkilega ferðinni?“