Mikið hefur verið fjallað um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst sem birt var í gær og er óhætt að tala um svarta skýrslu. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar skrifar um málið í Morgunblaðið í dag og greinir frá því að stjórnendur Íslandspósts hefðu reynt að fá ríkisendurskoðanda til að leyna Alþingi upplýsingum um rekstur félagsins. Um þetta hafi aðeins verið upplýst í gær á fundi fastanefndar þingsins:
„Skýrsla ríkisendurskoðunar er vægast sagt svört og því má velta fyrir sér hvort félagið sé heppilegt til samningagerðar við ríkið. Öllum var kunnugt um bága fjárhagsstöðu félagsins enda hafði Alþingi samþykkt að lána hinu ógreiðslufæra opinbera hlutafélagi 1.500 milljónir króna á fjárlögum þessa árs til að félagið gæti sinnt sinni grunnskyldu, að koma bréfum og bögglum milli húsa. Alþingi var hins vegar ekki kunnugt um hvernig á því stóð að félagið stóð svona illa né var það upplýst um hver aðdragandi þess var utan einstaka skýringar stjórnenda. Þá var einnig óljóst hver bar ábyrgð, hvað stjórn félagsins vissi um ástandið og hvað ráðuneytin tvö sem með málefni félagsins fara, fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið vissu um stöðu félagsins. Áður en að kynningu skýrslunnar kom vissum við heldur ekki að stjórnendur félagsins hefðu dregið það mjög að veita Ríkisendurskoðun umbeðnar upplýsingar né að stjórnendur hefðu ítrekað óskað eftir því við Ríkisendurskoðanda að hann leyndi Alþingi tilteknum upplýsingum um rekstur félagsins. Um það fengum við upplýsingar á fundi fastanefnda Alþingis í gær! Er alveg víst að þetta félag sé heppilegasti aðilinn til starfans?“
Bréfsendingar verða gefnar frjálsar um næstu áramót. Helga Vala nefnir að Ríkisendurskoðun hafi því miður ekki tekist að ljúka við gerð skýrslunnar áður en Alþingi afgreiddi breytingar á heildarlögum um póstþjónustu á Íslandi á nýloknu þingi, en meirihluti Alþingis vildi ekki bíða með afgreiðslu laganna þangað til að skýrslan birtist:
„Því höfum við nú sett lög, án þess að vita nokkuð um það hvert framhaldið verður á þessari grunnþjónustu. Fyrir liggur að stjórnvöld áætla að gera samning við Íslandspóst um dreifingu á bréfpósti, en ekkert liggur fyrir um hver kostnaður við það eina verk á að vera og hver á að greiða fyrir,“
segir Helga Vala.
Sjá einnig: Ólafur segir skýrslu Ríkisendurskoðunar staðfesta „alvarleg samkeppnisbrot í rekstri Íslandspósts“