Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Noregs er Ísland dýrasta land Evrópu. Norskir miðlar greina frá þessu í dag og Morgunblaðið bendir á. Mælist verðlag hér á landi 64% hærra en meðaltal ríkja Evrópu árið 2018. Sviss var í öðru sæti, 59% hærra en meðaltalið og Noregur í þriðja sæti, 55% yfir meðaltalinu.
Ef aðeins er horft til ríkja Evrópusambandsins, þá er Lúxemborg með hæsta verðlagið, 42% yfir meðallagi. Eru Danmörk , Írland, Svíþjóð og Finnland öll yfir meðallagi ríkja ESB einnig.
Verg landsframleiðsla Noregs er 50% hærri á hvern einstakling en meðaltalið í Evrópu og eru aðeins Lúxemborg, Írland og Sviss með hærra magn vergrar landsframleiðslu á mann í fyrra.
Þetta kemur heim og saman við tölur Hagstofu Íslands og Eurostat frá árinu 2017, í samanburði á verðlagi milli Evrópulanda. Þar var verðlag á einkaneyslu heimilanna um 66% hærra en meðaltalið fyrir Evrópu og meira en þrisvar sinnum dýrara en ódýrustu löndin (Búlgaría og Makedónía).
Verðlag einkaneyslu mældist þá 16-17% hærra á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Verð var um 33% hærra á Íslandi en í Svíþjóð og um 36% hærra en í Finnlandi.
Sjá einnig: Ísland: Dýrasta land Evrópu