Ójöfn staða kynjanna í íslensku atvinnulífi var tilefni rannsóknar sem þau Snjólfur Ólafsson, Erla S. Kristjánsdóttir, Lára Jóhannsdóttir og Þóra H. Christiansen réðust í er nefnist Þættir sem hafa áhrif á stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi: Heildarmynd sýnd með áhrifariti .
Tilgangurinn með rannsókninni er sagður vera sá, að draga fram heildarmynd af stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, með svokölluðu áhrifariti, þar sem sýnd eru atriði sem „vega þungt og hvernig þau hafa áhrif hvert á annað.“
„Á þennan hátt sýnir ein mynd, þ.e. áhrifaritið, ekki eingöngu hver meginatriði viðfangsefnisins eru, heldur er einnig hægt að sjá á einfaldan hátt margt fleira, t.d. hvaða atriði hafa mikil áhrif á tiltekið atriði og ýmsar orsakakeðjur,“
segir í inngangi rannsóknarinnar. Rannsóknaraðferðin er sögð ólíkt því sem tíðkist:
„Hún felst í því að draga saman sýn sérfræðinga og hagsmunaaðila á tiltekna þætti í íslensku samfélagi, orsakir, áhrif og hugsanlegar aðgerðir og kortleggja heildarmynd þar sem hver hluti myndarinnar byggist á sýn margra einstaklinga. Hlutverk rannsakenda er að raða sýn þeirra allra saman þannig að hún myndi eina heild. Sú heildarmynd sem fæst og sýnd er með áhrifariti er þar af leiðandi meginframlag greinarinnar. Leitast er við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu; Hvaða þættir geta stuðlað að jafnri stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi?“
Sjá má áhrifaritið hér að neðan, til glöggvunar.
Í framhaldinu má nefna að aðeins þriðjungur þeirra fyrirtækja og stofnana, sem þurfa lögum samkvæmt að öðlast jafnlaunavottun fyrir árslok, hafa öðlast slíka vottun nú. Fjórir vottunaraðilar sinna verkefninu en sérfræðingar telja að þeim þurfi að fjölga. Ljóst er að ekki mun takast að ljúka vottun allra, sem hana þurfa, fyrir áramót, líkt og greint var frá í morgun.
Sjá nánar: Mikið verk óunnið varðandi jafnlaunavottun – Fjöldi fyrirtækja á enn eftir að fá vottun