fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Segir niðurstöðurnar gefnar fyrirfram og skipanaferlið vera skandal og skrípaleik: „Þetta hefur verið klúður frá upphafi“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 21. júní 2019 09:19

Hörður Ægisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, finnur ferlinu í leitinni að nýjum seðlabankastjóra allt til foráttu í leiðara Fréttablaðsins í dag og segir að umsögn hæfisnefndarinnar beri þess merki að niðurstaðan hafi verið gefin fyrirfram. Þá telur hann einnig að rannsóknarreglur stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið uppfylltar:

„Umsögn nefndarinnar ber þess merki að niðurstaðan hafi verið gefin fyrirfram. Sett eru ný skilyrði, umfram það sem kveðið er á um í lögum og var ekki að finna í umsögnum fyrri hæfisnefnda frá 2014 og 2018, og rökstuðningur nefndarinnar, þegar honum er fyrir að fara, er í senn fátæklegur og handahófskenndur. Stjórnarformennska í nefnd opinberrar stofnunar, svo dæmi sé tekið, er tekin fram yfir framkvæmdastjórastöðu í stóru fjármálafyrirtæki við mat á stjórnunarhæfileikum. Þessi vinnubrögð, sem eru skrípaleikur, eru ekki boðleg. Þá bendir flest til að nefndin hafi ekki uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og augljóst virðist að ekki hafi farið fram heildstætt mat á umsækjendum eins og ætla má að krafa sé gerð um.“

Þeir Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri og Jón Daníelsson, prófessor við London school of economics í Lundúnum, voru metnir hæfastir af nefndinni. Þeir hafa allir doktorsgráðu í hagfræði.

Klúður frá upphafi

Hörður segir að nefndin taki ekkert tillit til þeirra veigamiklu breytinga sem verða á embættinu með sameiningu seðlabankans við Fjármálaeftirlitið, sem varð að lögum í gær og tekur gildi um áramótin:

„Þetta hefur verið klúður frá upphafi. Tímasetningin var óheppileg þegar embættið var auglýst laust til umsóknar í febrúar en þá hafði verið boðað frumvarp um að fjölga bankastjórum í fjóra – einn seðlabankastjóra og þrjá varaseðlabankastjóra – og að færa Seðlabankann og FME undir einn hatt. Nú er það orðið að lögum. Við mat á hæfi umsækjenda kaus nefndin hins vegar, en samkvæmt drögum að umsögn hennar metur hún fjóra mjög vel hæfa til að gegna starfi seðlabankastjóra, að taka í engu tillit til þeirra veigamiklu breytinga sem verða á embættinu með sameiningu bankans og FME. Sú nálgun tekur engu tali. Ein stærsta áskorun næsta seðlabankastjóra, sem mun krefjast mikilla stjórnunarhæfileika, verður að leiða það verkefni farsællega til lykta. Ekki er nóg að líta til hvaða embætta umsækjendur hafa gegnt – slíkt er enginn sjálfkrafa mælikvarði á hvort viðkomandi sé góður stjórnandi – heldur einnig þess árangurs sem þeir hafa náð í þeim störfum. Sú staðreynd að nefndin miðar umsögn sína við starfið í fortíð en ekki framtíð er því slíkur ágalli á hæfismatinu að forsætisráðherra, sem fer með skipunarvaldið, er ekki stætt á að reisa ákvörðun sína með það eitt til hliðsjónar.

Skipan mála er skandall

„Þætti einhverjum eðlilegt að forstjóri eftirlitsskylds félags á fjármálamarkaði færi fyrir nefnd sem ákvarðaði hæfi umsækjenda um starf forstjóra Fjármálaeftirlitsins? Vitaskuld ekki. Hagsmunaáreksturinn væri augljós. Það er hins vegar efnislega sú staða sem nú er uppi við val á næsta seðlabankastjóra,“

skrifar Hörður og setur dæmisögu sína í samhengi við þær kvartanir sem borist hafa vegna formanns hæfisnefndarinnar, sem situr í bankaráði Seðlabankans:

„Forsætisráðuneytinu, sem bárust kvartanir vegna hæfi Sigríðar Benediktsdóttur, formanns hæfisnefndar sem metur hæfi umsækjenda um embætti seðlabankastjóra á sama tíma og hún situr í bankaráði Landsbankans, þótti ekki ástæða til að gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Þessi skipan mála er skandall, einn af mörgum frá því að ráðningarferlið hófst, og hefur rýrt stórkostlega trúverðugleika nefndarinnar.“

Þarf sjálfstæða rannsókn

Hörður telur að grípa þurfi í taumana og rannsaka málið sérstaklega

„Hvað er til ráða? Sjái hæfisnefndin ekki að sér, sem er ekki við að búast, þá verða stjórnvöld að grípa í taumana. Sama hvaða skoðun menn kunna að hafa á því hver eigi að setjast í stól seðlabankastjóra þá er einsýnt að forystumenn ríkisstjórnarinnar, hafi þeir á annað borð áhuga á að vanda til verka í þessu stóra máli, geta að óbreyttu ekki gert neitt með marklausar niðurstöður nefndarinnar. Til að leysa hnútinn þarf forsætisráðherra þess vegna að ráðast í sjálfstæða rannsókn á hæfi umsækjenda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“