Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að með samþykkt breytinga á lögum um dýrasjúkdóma o.fl. og þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna á Alþingi í gær, sé Ísland fyrsta landið í heiminum sem setur á hreint og klárt bann við dreifingu matvæla sem sýkt eru af salmonellu og kampýlóbakter og sem innihalda ákveðnar tegundir sýklalyfjaónæmra baktería:
„Vinna okkar Framsóknarmanna í meðferð málsins á Alþingi hefur skilað sér í gríðarlegum breytingum frá fyrstu drögum málsins. Þeir sem hafa enn efasemdir um málið hafa ekki kynnt sér það til hlítar. Í húfi er verndun búfjárstofna, varnir gegn dýrasjúkdómum og matvælaöryggi,“
segir Þórarinn í tilkynningu og bætir við að bændur þurfi ekki að óttast samkeppni erlendis frá:
„Ísland er núna í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og íslenskir bændur óttast ekki samkeppni erlendis frá, þar sem hún er á jafnréttisgrunni, það er lykilatriði og allt tal um eitthvert annað er bara rangt.“
Þórarinn segir að bannið sé gert á grundvelli lýðheilsusjónarmiða og gagnrýnir þá sem standa að innflutningi á hráu kjöti hingað til lands um hættulega tilraunastarfssemi á forsendum græðginnar:
„Ef þessi mikilvægustu skref Alþingis hefðu ekki verið stigin værum við búin að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist. Íslensk stjórnvöld væru þá einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi með ósköpum. Bæði varðandi sýkingar í matvælum og sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Tilraunastarfsemi af því tagi gerist ekki á vakt okkar Framsóknarmanna. Og ótrúlegt að verslunin hafi verið tilbúin að taka þátt í slíkri tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann,“
segir Þórarinn Ingi.
Í fjármálaáætlun hefur Alþingi tryggt fjárveitingu til aukinna matvælarannsókna og eftirlits, nýsköpunar og framþróunar og til áhættumatsnefndar.