Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, skrifar pistilinn „Hrörnun í stjórnmálum“ í Morgunblaðið í dag, hvar hann segir sýndarmennsku og lýðskrum gera lítið úr pólitísku starfi og stjórnmálamenn færast til á litrófi stjórnmálanna hraðar en auga sé deplað.
Benedikt segir að Íslendingar hafi verið frumkvöðlar í að velja sér vindhana til forystu, þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við af vinstristjórninni. Líkir hann Sigmundi við Donald Trump Bandaríkjaforseta og Boris Johnson, sem er talinn líklegastur sem næsti forsætisráðherra Bretlands:
„Áratugum saman barðist Sjálfstæðisflokkurinn fyrir einstaklingsfrelsi, frjálsum viðskiptum, afnámi forréttinda, markaðslausnum og vestrænni samvinnu. Aðrir flokkar aðhylltust aðra stefnu, t.d. ríkisforsjá og forréttindi kaupfélaganna. Þegar Austur-Evrópa losnaði undan oki kommúnismans breyttist heimsmyndin. Þróunin á Vesturlöndum hefur verið hæg – en til verri vegar. Bandaríkjamenn völdu sér hættulegan vindhana sem forseta og Bretar gætu sett einn slíkan í stól forsætisráðherra á næstunni. Við megum minnast þess að á þessu sviði voru Íslendingar frumkvöðlar árið 2013.“
Benedikt nefnir að sterk öfl innan Sjálfstæðisflokksins hafi á undanförnu viljað snúa aftur til einangrunarhyggju þar sem sundrung vinaþjóða feli í sér tækifæri fyrir Ísland:
„Stór hópur innan flokksins er andstæður markaðslausnum þar sem þær rekast á við sérhagsmuni,“
segir Benedikt og nefnir dæmi þegar hann kom að myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð, fyrir hönd Viðreisnar:
„Þegar Viðreisn myndaði ríkisstjórn síðla hausts 2016 kynntum við okkur nýjustu ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins vel. Lítill munur var á áherslum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og því mikilvægt að finna samnefnara með Sjálfstæðisflokknum. Þegar samþykktir þessarar æðstu stofnunar sjálfstæðismanna fóru saman við hugmyndir okkar töldum við að auðvelt yrði að ná samkomulagi. Öðru nær. Ályktanir landsfundar fengu margar lítinn hljómgrunn – ekki hjá okkur heldur flokknum sem hafði samþykkt þær. Því kemur ekki á óvart að læknar í einkarekstri tala um „ríkisvæðingarstefnu dauðans“ meðan sjálfstæðismenn í ríkisstjórn fylgjast þöglir með.“
Benedikt telur að frelsisstefna Sjálfstæðisflokksins hafi fundið sér rödd innan Viðreisnar og Pírata, meðan Samfylkingin hafi kvatt miðjuna og færst til vinstri til að ná þeim atkvæðum af VG sem vilja ekki sjá samstarf með Sjálfstæðisflokknum:
„Því er kominn tími fyrir marga til þess að hugsa málin upp á nýtt. Viðreisn var stofnuð til þess að frjálslyndir kjósendur ættu sinn málsvara, til þess að rödd neytenda heyrðist og ferskir vindar blésu um vettvang stjórnmálanna. Viðreisn er opin öllum sem unna frelsinu.“
Þá gagnrýnir Benedikt hóp þeirra sjálfstæðismanna sem líti niður á konur:
„Mantra nokkurra sjálfstæðismanna er að gera lítið úr konum sem fylgja sannfæringu sinni og eru bara rétt um þrítugt og þaðan af yngri. Sumir halda að konur í stjórnmálum séu bara gluggaskraut.“