Frumvarp Sigríðar Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um helgidagafrið var samþykkt á Alþingi í gær með 44 atkvæðum gegn níu atkvæðum Miðflokksins.
Frumvarpið kveður á um að felld verði niður ákvæði í lögum um helgidagafrið sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar, en áfram verður óheimilt að trufla guðsþjónustu, kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.
Frídagarnir sem um ræðir eru sunnudagar, nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, hvítasunnudagur, annar dagur hvítasunnu, aðfangadagur jóla frá kl. 13, jóladagur, annar dagur jóla, gamlársdagur frá kl. 13, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní.
„Núgildandi lög um helgidagafrið eiga rætur að rekja til samfélags sem var með mjög ólíku sniði frá því sem er í dag. Markmið laganna er að tryggja fólki frið, ró, næði og tiltekna afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar. Ekki er talið rétt að takmarka frelsi fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar með ákvæðum í lögum. Fremur er eðlilegt að draga úr þeirri takmörkun sem lögin setja ýmsum rekstraraðilum á helgidögum, þannig að unnt sé að koma enn frekar til móts við þá sem stunda afþreyingu á þessum dögum og vilja njóta eða veita þjónustu,“
segir í greinagerð frumvarpsins.
Sigríður tjáði sig um frumvarpið á Facebook í gær og nefndi að ekki væri verið að drag úr vægi helgidagafriðsins:
„Ég lagði á það áherslu í framsöguræðu minni að með frumvarpinu væri ekki stefnt að því að draga úr vægi helgidagafriðs. Umræddir dagar eru hluti af okkar kristnu arfleifð og þess er sjálfsagt að minnast er þeir renna upp. Það verður hins vegar hver að fá að gera með sínu lagi. Sá friður sem æskilegt er að ríki þessa daga sem aðra er einkum innri friður hvers og eins okkar. Sú ró verður ekki fengin með lögum.“
Sigríður segir að tillit hafi verið tekið til óska stéttarfélaga varðandi frídaga launþega.
„Frumvarp mitt tók breytingum í meðförum þingsins. Í ljósi þess að í mörgum kjarasamningum er vísað til helgidaga þjóðkirkjunnar, og frumvarpinu er alls ekki ætlað að hrófla við samningsbundnum frídögum launþega, þá tók ég tillit til óska stéttarfélaga um að í lögum yrði áfram tilgreint hverjir þessir frídagar séu. Eins og kirkjuþing hafði bent á taldi ég fara betur á því að það yrði þá gert í lögum um 40 stunda vinnuviku án þess að vísað væri til þjóðkirkjunnar í því sambandi. Frumvarpið var hins vegar á endanum samþykkt þannig að áfram er í lögum um helgidagafrið taldir upp helgidagar þjóðkirkjunnar. Ég gerði ekki athugasemd við þessa afstöðu þingmanna þótt hún sé ekki í samræmi við það samband sem ríki og kirkja eiga í. Mér fannst jafnvel örlítið notalegt að finna hversu sterkt þingheimur allur telur sig tengjast þjóðkirkjunni þrátt fyrir oft hávær hróp um annað. En þjóðkirkjan hefur vitanlega sjálfdæmi um hverjir eru helgidagar í hennar dagbókum. Hvorki stéttarfélög né Alþingi mæla fyrir um það.“