Háskólinn í Reykjavík varð í gær fyrsti háskóli landsins til að hljóta jafnlaunavottun. Jafnlaunavottunin er staðfesting á því að unnið sé markvisst gegn kynbundnum launamun innan háskólans, að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun og að jafnlaunakerfi háskólans standist kröfur jafnlaunastaðals.
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og gæða í HR tóku í dag við staðfestingu um vottunina frá BSI á Íslandi sem er umboðsaðili BSI-group í Bretlandi (British Standards Institution) og faggild skoðunarstofa á Íslandi.
Jafnlaunavottunin er afrakstur viðamikillar úttektar á jafnlaunakerfi háskólans. Liður í ferlinu voru meðal annars tvær úttektir sem gerðar voru í janúar og febrúar af fulltrúum BSI á Íslandi. Jafnlaunaúttektir hafa verið gerðar árlega við háskólann frá árinu 2016.
„Við erum afar stolt stolt af því að vera fyrsti háskóli landsins til að hljóta jafnlaunavottun. Hún er mjög mikilvægur liður í vinnu okkar við að tryggja jafnrétti kynjanna samkvæmt metnaðarfullri jafnréttisáætlun háskólans,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.
„Við berum stolt jafnlaunamerki velferðaráðuneytisins og munum enn sem fyrr vinna að stöðugum umbótum í átt til aukins jafnréttis. Fyrir utan hið augljósa, að vottunin tryggir jöfn laun óháð kyni, þá er hún um leið verkfæri til að viðhalda góðum aga við launaákvarðanir,“ segir Sigríður Elín Guðlaugsdóttir framkvæmdastjóri mannauðs og gæða í HR.