fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Hildur um Sjálfstæðisflokkinn: „Situr uppi með það hlutverk að vera þessi skynsemisrödd í smásamfélagi“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 7. maí 2019 14:15

Hildur Sverrisdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur ráðherra, ritar grein í Þjóðmál sem kom út á dögunum. Ber greinin heitið „Hið lítt rædda hlutverk Sjálfstæðisflokksins“ hvar Hildur fer yfir framtíðarhlutverk og ábyrgð þessa stærsta stjórnmálaflokks landsins.

Segir Hildur hafa áttað sig á því að flokkurinn gegni ómissandi hlutverki sem ekki sé mikið rætt, en sé brýnt að standa vörð um, ekki síst í „þeim nýja raunveruleika sem við búum í þar sem ölduþungi umræðunnar er mikill og getur breytt landslagi stjórnmála og stemningu samfélags á örskotsstundu.

Um þetta hlutverk segir Hildur:

„Enginn annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert betur í því að horfa á heildarávinning ákvarðana, lögmæti og réttmæti þeirra og láta ekki stundarstemningu, múgsefjun eða tilfinningahita stöðva ákvarðanatöku og ferla kerfisins sem við búum við.“

Sjálfstæðisflokkurinn sé skynsemisröddin í partíinu

Rifjar Hildur upp ýmis umdeild mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið að, eins og að leyfa frjálsa sölu áfengis, gera leigubílaakstur frjálsan, einkavæða ríkisfyrirtæki og að útvarpsrekstur yrði gerður frjáls:

„Við erum vön því að taka okkur hlutverk þess sem verður að benda á heildarmyndina í efnahagsmálum, vön því að vera kjölfestan sem segir upphátt að það sé ekki hægt að gera allt. Stundum fær sá sem heldur uppi skynseminni að heyra að hann sé leiðinlegur, strangur og jafnvel vondur andstætt hinum sem segja bara fallega og skemmtilega hluti. En stundum þarf slíkar raddir, því annars eiga partíin til að enda illa,“

segir Hildur og nefnir að miklu valdi fylgi mikil ábyrgð:

„Sjálfstæðisflokkur nú og í framtíðinni situr uppi með það hlutverk að vera þessi skynsemisrödd í smásamfélagi sem hefur enn mjög takmarkaða kunnáttu í samfélagsmiðlanotkun og hinum mikla raddstyrk sem fylgir upplýsingabyltingunni. Sögulega hefur ábyrgðin enda verið mest hans og hann valdið henni heilt yfir ágætlega.“

Bylur hæst í tómri tunnu

Hildur telur að staðreyndir og vandaðar rökleiðslur fái of lítinn hljómgrunn, í stað upphrópana, tilfinningahita og gífuryrða og ekki loku fyrir það skotið að lesendur tengi þetta við umræðuna um þriðja orkupakkann, sem yfirmaður Hildar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, vill koma í gegnum þingið:

„Ef stjórnmálin láta stjórnast af þessari stemningu er hætt við að áhrif upphrópananna verði slík að sá sem hæst lætur geti haft áhrif á hvort lög eru sett eða virt, skoðanakannanir teknar á versta tíma verði látnar ráða för í mikilvægum málum og hjartnæmar fyrirsagnir stýri efnahagsmálum.“

Að þora að taka slaginn

Hildur nefnir að stjórnmálamenn veigri sér oft við að taka slaginn, af ótta við að lenda í skítkasti:

„Það eru þegar dæmi um þetta, og flokkarnir standa sig vægast sagt misvel í því að standast hrópkórana. Sjálfstæðisflokkurinn hefur blessunarlega staðið sig ágætlega í að láta ekki vindstyrk umræðunnar stjórna sér. Oftast er þetta bara truflandi en hefur ekki áhrif á fagleg störf. En það getur líka haft síður sýnilegar afleiðingar í för með sér. Stjórnmálamenn geta skirrst við að ræða mikilvæga hluti ef vitað er fyrir fram að þeir feli í sér pólitíska lífshættu,“

segir Hildur og nefnir sérstaklega umræðuna um fjölgun ungra karlmanna sem fara á örorkubætur; það séu sárafáir „ef nokkrir stjórnamálamenn“ sem ræði það grafalvarlega ástand:

„Þetta umræðuefni sem þyrfti að taka fyrir á opinn og breiðan hátt út frá öllum sjónarmiðum, allt frá mannsæmandi bótafjárhæðum til nauðsynlegra samfélagshvata til að skapa sér framtíð, er þó sama sem ekkert rætt. Ástæðan er hugsanlega sú að hræðslan við að vera brigslað um fordóma er yfirsterkari viljanum til að taka umræðuna.“

Agi og festa á kostnað vinsælda

Að lokum segir Hildur að hlutverk stjórnmálanna sé að taka óvinsælar ákvarðanir:

„Hlutverk stjórnmálanna er að hlusta á raddir fólks en ekki elta þær í blindni, meta vilja og hagsmuni heildarinnar, virða leikreglurnar sem við höfum sett og fara vel með ábyrgðina. Stundum felur það í sér að taka óvinsælar ákvarðanir og stundum verða einhverjir undir. Hagsmunahóparnir verða alltaf á sínum stað. Skoðanirnar verða alltaf margar og háværar. Stjórnvöld verða að hafa agann til að skera á hnúta, taka ákvarðanir, bera pólitíska ábyrgð og ganga svo með verk sín í dóm kjósenda. Festa, framtíðarsýn og skynsemi eru ekki í hávegum höfð þessa dagana, en þeir dagar munu líka líða og sá sem stendur í lappirnar mun á endanum fá það launað. Það er einn af mikilvægustu eiginleikum Sjálfstæðisflokksins sem hann þarf hlúa að og taka með sér inn í framtíðina.“

Þetta rímar ágætlega við orð Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði á dögunum varðandi umræðuna um þriðja orkupakkann, að hann léti ekki stjórnast af grasrót flokksins, hvers meirihluti virðsit andsnúinn orkupakkanum:

„Mér þykir afskaplega vænt um „grasrótina“ og er í miklum samskiptum við hana og hlusta. Ég er hins vegar ekki þannig maður að afstaða mín fari eftir því hvernig vindar blása hverju sinni, hvorki hjá „grasrót“ flokksins eða annars staðar. Þið hafið kosið rangan mann á þing ef þið haldið það, kæru vinir.“

Sjá nánar: Brynjar Níelsson:„Þið hafið kosið rangan mann á þing ef þið haldið það, kæru vinir“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”