Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er vafalaust leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag, hvar hann lýsir eftir uppnámi. Hann segir ýmis afbrigði íslenskrar umræðu, þegar tekist sé á um pólitísk álitaefni, vera vel þekkt:
„Eitt er að skilgreina þann sem hefur gagnstæða skoðun. Hann er sagður rasískur. Yfirleitt veit ásakandinn ekki hvað orðið þýðir. Eða hann er léttfasískur, hvað sem það er nú sem er létt við fasismann. Hann er iðulega sagður vera kvenfjandsamlegur. Mjög óljóst er hvað það orð þýðir, sérstaklega eftir að kynjunum fjölgaði upp í fjórtán með ákvörðunum Obama,“
segir Davíð og heldur áfram:
„Eitt tilbrigðið má eiginlega fella undir „þrastrix“. Það felst í því að lýsa öllum þeim áhyggjum sem einhver hefur haft uppi í deilum og segja að þær staðfesti að minnsta kosti að vafi ríki um málið. Og þá koma lausnarorðin sem þekkt eru t.d. í umræðum um virkjunar/náttúruverndarmál. „Þarna er vafi. Náttúran verður að njóta vafans.“ Þetta er dálítið sniðugt trix í þröngri stöðu rökleysunnar, því þótt andstæðingurinn í þannig deilu hafi margvísleg rök fyrir sínum vilja myndi varla henta að berjast með slagorðinu: „Virkjunin njóti vafans.“
Davíð segir þann sem vafans skal njóta, verða að hafa veikburða stöðu:
„Við þær aðstæður þrælvirkar röksemdin, þótt hún sé innistæðulítil. Það eru oftast nær flokkar á borð við Samfylkingu og Vinstri-græna, handhafar „góða fólksins“, sem nota trixið sem tekur við þegar rökunum sleppir: Þessi málstaður, okkar málstaður, á að njóta vafans, en ekki hinn. Trixið nær ágætum árangri t.d. í umræðum um loftslagsmál, sem eru ekki alveg laus við að hafa orðið ruglanda að bráð, því miður.“
Davíð segir „trixið“ einnig nýtast í umræðum um hvalveiðar, þar sem vísindarökin haldi ekki alltaf vatni, en heimfærir trixið sérstaklega upp á þá sem fylgjandi eru þriðja orkupakkanum, en sjálfur er Davíð honum andstæður.
„Það er mikið umhugsunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að gefa sjálfum sér og stuðningsmönnunum tvennt í 90 ára afmælisgjöf í þessum mánuði. Það fyrra er að neyða atlöguna að stjórnarskránni niður um kokið á hvorum tveggja með góðu eða illu og sanna að þar hafi menn ekkert lært af óförunum í Icesave. Samt segja þeir að málið sé ekki um neitt. Það sé ekkert í því. Það taki ekkert vald af Íslandi og færi ekkert vald yfir til ESB. En hvers vegna þá? Hvers vegna að ulla á allt þetta fólk og það út af engu? Það getur ekki eingöngu verið gert í tilefni dagsins. Eina svarið og það sem á að duga til að efna til átaka við almenning er að ella muni samningurinn um EES hanga á bláþræði og það sé „skemmdarverk“ að stofna til þess. Af hverju mundi hann hanga á bláþræði út af máli sem er ekki um neitt og snýst ekki um neitt?“
Davíð segir EES samninginn gera ráð fyrir því að aðildarríki hans geti hafnað slíkum tilskipunum sem þriðji orkupakkinn sé, ellegar hefði hann ekki staðist stjórnarskrá.
Þá vitnar hann til Kastljóssviðtalsins við Stefán Má Stefánsson prófessor í gærkvöldi:
„Stefán Már var spurður um það í gær af „RÚV“ hvort rétt væri að yrði látið undan ótta almennings færi EES-samningurinn í uppnám. Prófessorinn brosti góðlátlega og gat ekki séð hvernig það fengi staðist. Fyrst rökleysan virðist komin að endamörkum stendur sú spurning ein eftir hvort Juncker, Tusk og „uppnámið“ eigi að njóta vafans en ekki stjórnarskráin. Hin gjöfin verður kannski rædd síðar.“